Lönduðu fullfermi í heimahöfn
9. janúar, 2024
nyjar_eyjar
Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu báðir fullfermi í heimahöfn í gær. Eyjar.net/Tryggvi Már

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu báðir fullfermi í heimahöfn í gær.

Fram kemur á vef Síldarvinnslunnar að Vestmannaey hafi landað í gærmorgun og Bergur síðdegis.

Rætt er við skipstjóra beggja skipanna og sagði Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, að veiðin hefði verið misjöfn í túrnum. „Við fengum tvo afar góða neista í túrnum en síðan var þetta rag þess á milli. Þetta byrjaði vel og endaði vel. Við hófum veiðar á Pétursey og síðan voru dregin grunnin og dýpin alveg austur í Breiðamerkurdýpi. Það var fínasta veður allan tímann. Aflinn var blandaður; mest þorskur, ýsa og ufsi. Það er ekki hægt að vera ósáttur við þessa byrjun á árinu,“ segir Birgir Þór.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, tekur undir með Birgi Þór og segist vera sáttur við byrjunina á nýja árinu. „Árið fer bara vel af stað og það er ekki annað hægt en að vera ánægður með veiðina. Í túrnum byrjuðum við í Meðallandsbugtinni og fengum þar helst ýsu, síðan var farið á Ingólfshöfðann og þar fékkst þorskur og ýsa. Þá lá leiðin í Breiðamerkurdýpið þar sem ýsa fékkst og í Skeiðarárdýpið þar sem fékkst kokteill af ýmsum tegundum. Í lokin var haldið aftur á Ingólfshöfðann og þar restuðum við í þorski. Þetta er hinn fallegasti fiskur sem fékkst í veiðiferðinni og sem betur fer virðist ufsi eitthvað vera að sýna sig allvíða en hann hefur verið okkur erfiður að undanförnu,“ segir Jón.

Gert er ráð fyrir að bæði Vestmannaey og Bergur haldi á ný til veiða á morgun.

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst