Málefni Hraunbúða voru einu sinni sem oftar til umræðu á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku. Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, gerði grein fyrir samskiptum við forstjóra Sjúkratrygginga Íslands um yfirfærslu dvalar- og hjúkrunarheimilisins Hraunbúða frá Vestmannaeyjabæ til ríkisins. Jafnframt fór bæjarstjóri yfir fund með heilbrigðisráðherra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og þremur öðrum bæjarstjórum sveitarfélaga sem munu ekki endurnýja samninga við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila.
Fátt um svör
Mjög erfiðlega hefur gengið að fá svör frá ríkisvaldinu um yfirfærsluna og enn óljóst hvaða rekstraraðili komi til með að taka við rekstri Hranubúða. Þrátt fyrir að margir mánuðir séu liðnir frá því að Vestmannaeyjabær sagði upp samningi við SÍ um rekstur stofnunarinnar og ítrekaðar tilraunir til þess að fá svör við spurningum og erindum, hefur illa gengið að fá upplýsingar um verðandi rekstraraðila og ýmis hagnýt atriði í tengslum við slíka yfirfærslu. Aðeins eru rúmir tveir mánuðir í að starfsemin verður flutt frá Vestmannaeyjabæ til ríkisins. Fyrr í vikunni bárust loks þau svör frá SÍ um að til stæði að auglýsa eftir rekstraraðila. Það verður því heilmikil áskorun fyrir aðila að halda tímaáætlun um yfirfærsluna.
Skorar á Sjúkratryggingar Íslands
Í sameiginlegri bókun bæjarstjórnar lýsir bæjarstjórn áhyggjum af þeirri óvissu sem ríkir um framtíðar rekstrarfyrkomulag dvalar- og hjúkrunarheimilsins Hraunbúða. Jafnframt lýsir bæjarstjórn undrun á viðbragðs- og úrræðaleysi Sjúkratrygginga Íslands. Þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir fulltrúa Vestmannaeyjabæjar um skýr svör, hefur Sjúkratryggingum hvorki tekist að upplýsa um nýjan rekstraraðila, né veitt Vestmannaeyjabæ leiðbeiningar um hvaða skref þurfi að stíga til þess að tryggja farsælan tilflutning starfsemi Hraunbúða. Bæjarstjórn Vestmannaeyja skorar á Sjúkratryggingar Íslands að vinna málið hratt og örugglega svo að eyða megi óvissu starfsfólks, heimilisfólks og aðstandenda heimilisfólks Hraunbúða um yfirfærsluna.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst