Markáætlun um náttúruvá
13. apríl, 2024

Ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun samþykkti á fundi sínum 15. febrúar síðastliðinn að setja á fót nýja Markáætlun um náttúruvá. Markáætlun er áherslumiðuð rannsókna og nýsköpunaráætlun sem úthlutar styrkjum í opinni samkeppni og er henni ætlað að skapa nýja hagnýta þekkingu sem hefur mikinn samfélagslegan ávinning í för með sér. Þetta á sérstaklega vel við um náttúruvá þar sem auka þarf þekkingu og þróa nýjar lausnir sem nýtast samfélaginu í heild og tryggja að aðilar á mismunandi stigum þekkingarsköpunar vinni saman.

Atburðir undanfarinna mánaða í Grindavík hafa varpað ljósi á þær hættur sem skapast geta í íslenskri náttúru og mikilvægi þess að skilja betur það umhverfi sem við búum við. Jarðskjálftar og eldgos eru tíð á Íslandi og hafa mikil áhrif á líf fólks. Einnig hafa snjóflóð og skriður kostað mörg mannslíf á Íslandi, skaðað innviði og heimili. Á tímum örra loftslagsbreytinga má vænta þess að náttúruvá aukist enn frekar á næstu árum. Mikilvægi vísinda og nýsköpunar er ótvírætt í þessu samhengi og miðlun vísindalegrar þekkingar og nýrra lausna til almennings, og stjórnvalda, er mikilvægur þáttur í því að viðhalda seiglu samfélaga.

Markáætlun um náttúruvá mun leiða saman háskóla, fyrirtæki, rannsóknarstofnanir, vísindafólk og frumkvöðla á öllum fræðasviðum og stuðla að auknum skilningi á íslenskri náttúru, samfélagi og umhverfi ásamt því að finna lausnir við áskorunum sem koma óvænt upp. Markáætlunin styður því við fjölbreytt og nýsköpunarmiðað samfélag byggt á öflugum grunnrannsóknum og hagnýtri þekkingu til að takast á við örar breytingar og nýjar hættur.

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst