Verð á sjávarafurðum lækkaði um rúm 1,4% í erlendri mynt í október frá fyrri mánuði samkvæmt verðvísitölu sjávarafurða sem Hagstofa Íslands birti í morgun. Greint er frá þessu á vef SFS. Miðað við október í fyrra hefur verð á sjávarafurðum lækkað um 7,5% í erlendri mynt. Á þann kvarða hefur lækkunin ekki verið meiri í rúman áratug, eða síðan í árslok 2009. Þetta er verulegur viðsnúningur frá þeirri þróun sem átti sér stað fyrir COVID-19, eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan, enda hafa markaðsaðstæður fyrir sjávarafurðir verið afar erfiðar frá því heimsfaraldurinn skall á. Verðlækkanir hafa jafnframt heldur verið að færast í aukana eftir því sem liðið hefur á árið, enda hefur faraldurinn farið aftur á flug og sóttvarnaraðgerðir samhliða því.
Mismikil lækkun
Þróunin á afurðaverði er þó talsvert mismunandi eftir einstaka afurðaflokkum og tegundum, enda eru sjávarafurðir afar fjölbreyttar og fluttar út til mismunandi landa og á ólíka markaði. Það má til að mynda sjá á myndinni hér fyrir neðan sem sýnir tólf mánaða breytingu á verði botnfiskafurða í erlendri mynt frá ársbyrjun 2019. Þar má sjá að í október höfðu ferskar botnfiskafurðir lækkað minnst í verði en skreið mest. Í heild hafa botnfiskaafurðir þó lækkað talsvert minna í verði en aðrir tegundahópar miðað við verðvísitölur Hagstofunnar. Þannig hafði verð á botnfiskaafurðum lækkað um tæp 5% á milli ára í október á sama tíma og verð á skelfiski hefur lækkað um rúm 13% og á uppsjávarafurðum um 17%.
Endurskoðaðar tölur væntanlegar
Ofangreind þróun á verðvísitölu sjávarafurða styður þá ályktun, sem kom fram í grein á Radarnum í byrjun þessa mánaðar, að afurðaverð hafi spilað talsverða rullu í þeim samdrætti sem átti sér stað í útflutningsverðmætum sjávarafurða í október. Það mun koma betur í ljós þegar Hagstofan birtir tölur um vöruviðskipti fyrir janúar til október, en þá mun liggja fyrir sundurliðun á því hvernig útflutningsverðmæti sjávarafurða í október skiptist niður og hvert útflutt magn var. Birting á þeim tölum hefur verið flýtt, en samkvæmt fréttatilkynningu Hagstofunnar frá því í morgun verða tölurnar birtar á fimmtudaginn í stað mánudags í næstu viku. Auk hefðbundinnar útgáfu mun Hagstofan einnig birta endurskoðaðar tölur um utanríkisverslun nokkur ár aftur í tímann, og án efa munu verða einhverjar breytingar á tölum um útflutning á sjávarafurðum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst