Bæjarbúar hafa verið duglegir við hreinsun á húsum og görðum eftir öskufallið um síðustu helgi. Enn er þó mikil aska á götum og víðs vegar um bæinn sem gerir það að verkum að svifryksmengun er mikil um leið og hreyfir vind. „Við erum með öll okkar tæki á fullu,“ sagði Ólafur Snorrason framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs á þriðjudag. „Við erum með einn sóparabíl, þrír vörubílar eru á ferðinni, einn frá Áhaldahúsi og tveir aðrir sem hirða upp kör og poka með ösku og svo eru þrjár gröfur að skafa upp af köntum við götur. Slökkvilið bæjarins og flugvallar eru við hreinsun við skóla, sjúkrahúsið og fleiri stofnanir.“