Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga kynna nýja skýrslu um ástand og framtíðarhorfur helstu innviða á Íslandi á fundi í Kaldalóni í Hörpu kl. 12-13.30 í dag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:
- Mikil innviðaskuld dregur úr lífskjörum landsmanna. Í skýrslunni kemur fram að uppsöfnuð viðhaldsskuld í innviðakerfinu er 680 milljarðar króna. Það gengur ekkert að vinna á innviðaskuldinni. Í sambærilegri skýrslu sem gefin var út fyrir fjórum árum mældist innviðaskuldin 420 milljarðar króna.
- Mest er uppsöfnuð viðhaldsskuld í vegakerfinu eða á bilinu 265–290 milljarðar króna.
- Íslenskt innviðakerfi hefur ekki fylgt eftir vexti hagkerfisins. Hægur vöxtur innviðakerfisins er hamlandi fyrir framtíðarvaxtarmöguleika hagkerfisins og getur haft alvarleg áhrif á verðmætasköpun, lífsgæði og samkeppnishæfni landsins.
- Það er sláandi að staða innviða hafi ekki batnað á undanförnum árum þrátt fyrir vilja stjórnvalda til að bæta úr. Þessi staða vekur upp spurningar um viðnámsþrótt samfélagsins og í því samhengi hvort innviðir hafi burði til þess að virka sem skyldi þegar á reynir. Nauðsynlegt er að bregðast við þessu með markvissum hætti.
- Ónóg fjárfesting og viðhald á undanförnum árum hefur leitt til þess að ástand innviða er víða ófullnægjandi og hefur ekki batnað á síðustu árum. Má með réttu segja að viðhaldsskuldin sé form skuldasöfnunar af hálfu hins opinbera þar sem ríki og sveitarfélög eru að velta skuld yfir á komandi kynslóðir með því að fresta nauðsynlegu viðhaldi. Kostnaðurinn af slíkri skuldasöfnun fyrir samfélagið allt er mikill í formi minni afkastagetu og lægra þjónustustigs.
- Endurstofnvirði innviða á Íslandi er áætlað um 6.700 milljarðar króna sem jafngildir 147% af vergri landsframleiðslu. Þetta er hærra hlutfall en í flestum öðrum löndum og endurspeglar mikilvægi innviða fyrir íslenskt samfélag.
- Að meðaltali fá innviðir ástandseinkunnina 3, á skala frá 1 til 5, þar sem 1 er verst og 5 er best. Einkunnin 3 gefur til kynna að umtalsvert viðhald sé nauðsynlegt til að halda starfsemi innviða gangandi og að verulega fjárfestingu þurfi til að bæta ástand þeirra til lengri tíma.
- Framtíðarhorfur eru verstar fyrir vegakerfið, hafnir, vatnsveitur, flugvelli og lendingarstaði fyrir utan Keflavíkurflugvöll.
- Opinber fjárfesting og viðhald innviða getur reynst öflugt tæki til að örva útflutning og hagvöxt. Með því að ráðast í uppbyggingu og endurbætur á innviðum er hægt að skapa störf og styrkja stoðir efnahagslífsins.
- Með því að nýta þá möguleika sem fjárfesting í innviðum býður upp á er hægt að styrkja stoðir samfélagsins og leggja grunn að bættum lífsgæðum til framtíðar. Aukin innviðafjárfesting getur verið lykill að sjálfbærum hagvexti.
Markmið með útgáfu skýrslunnar er að lýsa stöðu helstu innviða hagkerfisins og draga fram hvað þarf til að tryggja gæði þessara meginstoða íslensks samfélags. Í skýrslunni er lagt mat á endurstofnvirði og viðhaldsskuld, ástand innviða er metið og greint frá hverjar framtíðarhorfurnar eru.
Innviðirnir sem fjallað er um í skýrslunni eru flugvellir, hafnir, vegakerfi, fráveitur, hitaveitur, vatnsveitur, raforkuvinnsla, raforkudreifing og -flutningur, fasteignir ríkis og sveitarfélaga og úrgangsmál. Hér má skoða skýrsluna.
