Magnús Gylfason, sem mun taka við þjálfun ÍBV eftir tímabilið sagðist í samtali við Eyjafréttir í gærkvöldi vera spenntur fyrir nýju verkefni. „Ég var svo sem ekkert á leiðinni í að fara þjálfa í úrvalsdeild. Ég er í mjög góðu starfi hérna hjá Haukum, vinn í fimm mínútna fjarlægð frá Ásvöllum og leið mjög vel hérna í Hafnarfirðinum. En líklega var ÍBV eitt af fáum félögum sem gátu fengið mig til að fara héðan og eftir smá íhugun ákvað ég að láta slag standa, enda átti ég tvö mín bestu ár í þjálfun hjá ÍBV.“