Ásta Hrönn Guðmannsdóttir, ein eigenda hárgreiðslustofunnar Sjampó, ræddi við Eyjafréttir um hártískuna í haust/vetur og gaf jafnframt góð ráð um umhirðu hársins í kuldanum. Hún deildi með okkur hvaða litir og stílar njóta vinsælda þessa dagana og hvað skiptir mestu máli til að halda hárinu heilbrigðu yfir vetrarmánuðina.
Þegar spurt er hvað sé vinsælast þegar kemur að hári nú í haust segir Ásta áhersluna vera mjúkir brúnir tónar, ljóst dempað hár, skuggi í rótina ásamt koparlitum sem koma alltaf sterkir inn á haustin.
Hún segir að helstu mistök sem fólk geri þegar kemur að hárumhirðu sé að hugsa ekki nógu vel um hárið heima eftir litun. ,,Við mælum alltaf með að nota hitavörn, en því miður eru enn þá of margir sem nota ekki hitavörn fyrir sléttun og blástur. Einnig bendum við fólki á að við mælum ekki með að fara að sofa með blautt hár. Fyrir þá sem eru með hársvarðar vandamál þá er einnig geggjað ráð að blása rótina,“ segir Ásta Hrönn.
Aðspurð hvað sé í persónulegu uppáhaldi hjá Ástu þegar kemur að hári segir Ásta það vera að strípa hár. „Ég elska að vinna vel heppnað ljóst hár, en mér þykir mjög gaman að leika mér með tónera og skol.“
Ásta segir mikilvægt þegar fer að kólna úti að passa upp að fara ekki út með blautt hár, muna að næra hárið vel og nota góða djúpnæringu. Hún segir einnig gott að nota næringarsprey ef hárið verði mikið rafmagnað úti í kuldanum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst