Þó ekki verði sett Þjóðhátíð á morgun þá mátti finna fasta liði í Herjólfsdal á fimmtudagskvöldi. Þar fóru fram myllu- og vitavígslur með hefðbundnu sniði þar sem aðstandendur hvors mannvirkis kepptust við það langt umfram efni að ausa eigið mannvirki lofi og lasta á sama tíma nágranna sinn. Jóhann Pétursson forsprakki myllumanna kom meðal annars inn á það í ræðu sinni að hann væri ánægður með þá nýju hefð að vitinn yrði bara settur upp annað hvert ár. Þá stakk hann upp á því að réttar væri að miða við fyrir og eftir myllu í stað þess að tala um Þjóðhátíð í þessum efnum enda ekki orðið messufall hjá myllumönnum síðustu ár. Andri Hugo Runólfsson vitavörður og liðsmaður VKB gerði annarlegt ástand myllunnar og uppsafnaða viðhaldsþörf að umtalsefni í ræðu á sama tíma og hann lofaði nýtt Omaggio útlit vitans. Gestum var boðið upp á léttar veitingar ásamt því að við bæði mannvirkin var athöfninni slitið með léttum söng sem hefði þolað svona eins og eina æfingu fyrir flutning.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst