Fyrir liggur skýrsla starfshóps velferðarráðuneytisins og var skýrslan tekin fyrir hjá bæjarráði í gær. Skýrslan fjallar um mögulega aukna aðkomu þyrlna að sjúkraflugi.
„Stjórn SASS tekur undir sjónarmið tveggja af sjö fulltrúum í starfshópnum um að leggja til við heilbrigðisráðherra að sérstakri sjúkraþyrlu verði komið á fót, með stuttum útkallstíma (<10 mínútur) og sérhæfðum mannskap (lækni og hjúkrunarfræðingi/bráðatækni). Áætlaður kostnaður er á bilinu 500 til 880 milljónir kr. á ári eftir því hvaða þyrla yrði valin til verkefnisins og hvort einn eða tveir flugmenn yrðu í áhöfn. Stjórn SASS leggur jafnframt til að þyrlan verði staðsett á Suðurlandi. Stjórn SASS áréttar nauðsyn þess að sem fyrst verði farið í tilraunverkefni þar sem þyrlur verði notaðar í sjúkraflug.
Bæjaráð Vestmannaeyja tekur undir þessa ályktun stjórnar SASS enda myndi þetta verkefni auka öryggis- og þjónustig vegna sérhæfðar bráðþjónustu fyrir Vestmannaeyjar. Í ljósi þess að viðbragðstími sjúkraflugs hefur aukist og sólarhrings skurðstofuvakt í Vestmannaeyjum hefur verið lögð af telur bæjarráð ákjósanlegt að staðsetja þyrluna í Vestmannaeyjum,“ segir í bókun.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst