Gísli Stefánsson tók nýverið sæti á Alþingi. Gísli leysti þar af Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann Sjálfstæðisflokksins. Við tókum púlsinn á Gísla, sem einnig situr í bæjarstjórn Vestmannaeyja um veru hans á þingi.
Gísli segir aðspurður um hvernig það hafi verið að setjast á þing að það hafi verið mögnuð reynsla. „Á þessum vinnustað er að finna gríðarlega hæft fólk sem hefur valið það að starfa fyrir þjóðina og það er ekki laust við að smá svona “imposter syndrome” geri vart við sig. Ég var þó búinn að undirbúa mig vel og ákvað að skilja eftir mig spor á þinginu. Flutti jómfrúarræðuna í atkvæðaskýringu um veiðigjöld þar sem ég benti á að málið ætti sennilega best heima í efnahags- og viðskiptanefnd sem fer með skattamál. Svo tók ég þátt í fjölda umræða sem voru í þinginu og í allsherjar- og menntamálanefnd sem ég einnig í í þessari viku. Svo fengu einir sex ráðherrar fyrirspurnir frá mér þar sem ég óskaði eftir skriflegum svörum frá þeim.”
Sjá einnig: Gísli lætur að sér kveða á þingi – Eyjafréttir
Var eitthvað sem kom þér á óvart?
Já og nei. Ég þekki nokkuð marga á þinginu eftir að hafa tekið þátt í pólitík undanfarin ár svo ég var með nokkuð góða innsýn inn í störfin og móralinn en það kom mér nokkuð á óvart hvað fólk úr öllum flokkum var áhugasamt um mig og mínar pælingar og það var ágætis merki um að samtalið inni í þinginu er gott. Fjölmiðlar sýna það takmarkað enda er svosem ekki skortur á fréttaefni hvað varðar átök um málefnin. Einnig var gott að upplifa engar hömlur við að hoppa beint út í djúpu laugina.
Er Gísli er inntur eftir svörum um hvað honum hafi fundist helst brenna á þingheimi segir hann að veiðigjöldin hafi verið nokkuð stórt mál.
„Þó að umræðu um þau væri lokið þegar ég kom inn. Þau lituðu flest alla aðra umræðu. Einnig var það nokkuð stórt mál, a.m.k. hjá stjórnarandstöðunni að forseti hefði gengið á bak orða sinna við fulltrúa stjórnarandstöðunnar um að lengja ekki í fundartíma og sett þingfund á laugardegi í ofan á lag. Botnin fór svo úr þegar að fjármálaráðherra mætti ekki til þingfundarins umræddan laugardag þar sem hann var upptekinn við vinnustofu Viðreisnar, sem var haldin innan veggja Alþingis. Þetta hafði svo mikil áhrif á umræðuna fram eftir vikunni og kenndi mér vel á það hvernig þingstörfin geta verið flókin.”
Nú lagðir þú fram þó nokkuð af fyrirspurnum til ráðherra. Hvað varst þú að spyrja þá um?
Innviðaráðherra fékk fyrirspurnir frá mér í tenglum við göng til Eyja, útboð á innanlandsflugi og framtíðaráform í Landeyjahöfn. Einnig spurði ég hann útí lokaáfanga í tvöföldun Reykjanesbrautar. Heilbrigðisráðherra fékk fyrirspurn um hvort hún hyggist klára sjúkraþyrluverkefnið á Suðurlandi sem búið var að fjármagna fyrir covid og fjármálaráðherra fékk fyrirspurn frá mér um hvort hann hyggst halda til streitu núverandi kröfulýsingu sinni í úteyjar Vestmannaeyja. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fékk fyrirspurnir frá mér vegna húshitunarkostnaðar í eyjum og framtíðaruppbyggingu orkuinnviða og fjármálaráðherra fékk fyrirspurn um fasteignafélagið Þórkötlu og stöðu þeirra Grindvíkinga sem kunna að vilja snúa aftur heim. Einnig fékk dómsmálaráðherra fyrirspurn um framtíðarstöðu skipastóls Landhelgisgæslunnar í Njarðvíkurhöfn.
Að endingu segir Gísli að hann muni á næstu vikum fá svör við þessum fjölmörgu fyrirspurnum og vonar að þar leynist svör sem gleðji. „Einnig vona ég að út úr þeim skapist samtöl sem munu bæta stöðu þeirra málaflokka sem ríkið fer með ferðina í og eru okkur mikilvægir. Andstæðurnar í því hvernig við höfum haldið á okkar málum hér í Eyjum í samanburði við stöðuna í þeim málaflokkum sem okkur varða en eru á forræði ríkisins eru augljósar og því er nauðsynlegt að rödd okkar heyrist á þingi.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst