Sunnudaginn 1.desember, fyrsta sunnudag í aðventu, verður nýr orgelsjóður kynntur til leiks í guðsþjónustunni kl. 13.00. Matthías Harðarson formaður sjóðsins mun kynna sjóðinn fyrir kirkjugestum og fólki gefst færi á að skrá sig í áskrift hjá sjóðnum á staðnum, en einnig verður hægt að skrá sig seinna og fá nánari upplýsingar hjá Matthíasi.
Þann 30. nóvember eru liðin 100 ár frá stofnun KFUM hér í Vestmannaeyjum.
Félagið hefur allt frá stofnun verið í miklu og góðu samstarfi við Landakirkju, enda var einn af stofnendum félagsins og jafnframt fyrsti formaður félagsins sr. Sigurjón Þ. Árnason, sem kom hingað til Eyja í upphafi ársins 1924 og var prestur í Landakirkju í rúmlega 20 ár. Með honum í stjórn voru Páll V.G. Kolka læknir, Steinn Sigurðsson klæðskeri, Þorbjörn Guðjónsson bóndi á Kirkjubæ og Bjarni Jónsson verslunarmaður.
Um 130 strákar voru í félaginu við stofnun í yngri og eldri deild. Fyrstu verkefni félagsins voru biblíufyrirlestrar á heimilum stjórnarmanna, en auk þess voru samverur á sunnudagskvöldum og einnig hafði félagið umsjón með sunnudagaskólanum í Landakirkju.
Tveimur árum síðar var svo KFUK stofnað og voru 95 stúlkur sem stóðu að stofnun þess. Árið 1925 var farið af stað með söfnun fyrir húsnæði KFUM&K og var húsið reist við Vesturveg 5 og vígt 9. janúar 1927.
Húsið varð mikil lyftistöng fyrir starfsemi félagsins og má segja að staðsetningin hafi verið einkar góð, enda miðsvæðis í bænum allt fram að gosi, en eftir gos er húsið komið í jaðar bæjarins.
Í janúar 1929 var komið á fót sjómannastofu, enda þótti sýnt að sá mikli fjöldi sjómanna sem hér var á vertíð vantaði húsnæði til að koma saman undir kristnum formerkjum. Þessi starfsemi varð til að efla félagið enn frekar og árið 1968 var hin eiginlega sjómannstofa byggð sunnan við aðalbygginguna og var íbúð á efri hæðinni.
Árið 2018 var ákveðið að selja húsnæðið, enda var það orðinn all nokkur baggi á félaginu og fóru allar tekjur í viðhald sem ekki sá fyrir endann á.
Öll starfsemi félagsins fer nú fram í safnaðarheimli Landakirkju en Trausti Mar Sigurðarson hefur umsjón því starfi sem á vegum félagsins er.
Stjórn félagsins í dag er skipuð sr. Guðmundi Erni Jónssyni formanni, Gísla Stefánssyni ritara, Ragnheiði Perlu Hjaltadóttur ritara og meðstjórnendunum Brynju Rut Halldórsdóttur og Snorra Rúnarssyni.
Á vormánuðum er stefnt á að halda uppá 100 ára afmælið, enda vonast stjórnin til að kosningar séu þá ekki að flækjast fyrir þeim fagnaðarlátum sem þá verða.
Frá Landakirkju.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst