Þriðjudaginn 12. febrúar var Siglfirðingurinn Róbert Guðfinnsson með gríðarlega áhugavert erindi í Þekkingarsetri Vestmannaeyja. Mikill áhugi var fyrir erindi Róberts, enda mættu á fimmta tug í Setrið til að hlýða á erindið. Yfirskrift erindisins var Nýsköpun, markaðssetning og framtíðin.
Erindi sínu skipti Róbert í 3 hluta: vörumerki, líftækni og fiskeldi. Meðan á erindinu stóð svaraði hann spurningum úr sal.
Róbert tók dæmi um vel heppnaðar aðgerðir í markaðssetningu í heiminum og tengdi það við íslenskan sjávarútveg. Einnig fjallaði hann um áhugaverða nálgun sem fyrirtæki á Íslandi hefur farið í markaðssetningu og vörumerkjastjórnun (e. branding) á sjávarafurðum og ný tækifæri sem eru að skapast með aukinni upplýsingamiðlun. Miklar breytingar eru að eiga sér stað í markaðssetningu sjávarafurða að mati Róberts.
Nýsköpun var rauði þráðurinn í erindinu og tengdi Róbert með skýrum hætti umhverfi nýsköpunarverkefna og fjármagn sem þarf til slíkrar starfsemi.
Róbert ræddi reynslu sína úr líftækni og hvaða innviðir þurfa að vera í samfélögum til að slík starfsemi geti þrifist og það hvernig hægt er að tengja vörur og þjónustu við sveitarfélög í markaðssetningu. Lífsgæði í samfélögum eru ofarlega í huga Róberts. Svo fyrirtæki geti blómstrað og vaxið, að mati Róberts, þarf góð lífsgæði fyrir íbúa. Róbert hefur lagt mikið upp úr þessu í sinni atvinnuuppbyggingu á Siglufirði.
Hann ræddi um nýja hluti sem eru að gerast í líftækni, m.a. nýjar afurðir sem geta mögulega komið í stað hefðbundins hráefnis í fiskeldi s.s. fiskimjöl og lýsi.
Að lokum setti Róbert fram spennandi hugmyndir um úthafsfiskeldi og hvatti Eyjamenn til að skoða möguleika á slíku eldi í kringum Vestmannaeyjar. Að hans mati geta Vestmanneyjar orðið þjónustumiðstöð fyrir slíka starfsemi.
Hægt verður að lesa viðtal við Róbert í næsta tölublaði Eyjafrétta sem kemur út miðvikudaginn 20.febrúar.
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.