Samgöngustofa hefur fyrirskipað Reykjavíkurborg að loka annarri flugbrautinni þar sem tré í Öskjuhlíðinni hafa áhrif á flugöryggi. Áður hafði verið farið fram á það við borgina að trén yrðu felld en borgaryfirvöld hafa ekki brugðist við sem skyldi. Bæjarráð Vestmannaeyja fjallaði um málið á fundi ráðsins í gær.
Ráðið lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðunni varðandi Reykjavíkurflugvöll. Lokun annarrar flugbrautarinnar mun ógna flugöryggi og draga verulega úr notkun vallarins. Vestmannaeyingar eins og fólk á landsbyggðinni treystir á innanlandsflugvöllinn, m.a. fyrir sjúkraflug.
Flugöryggi í kringum Reykjavíkurflugvöll er hagsmunamál allra landsmanna og sífelldar uppákomur borgaryfirvalda tengdar rekstri og öryggi flugvallarins eru óboðlegar. Bæjarráð skorar á borgaryfirvöld að leysa þá stöðu sem upp er komin sem fyrst, segir í bókun bæjarráðs.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst