Steini og Olli byggingaverktakar ehf er stofnað árið 1988 af tveimur húsasmíðameisturum, Ársæli Sveinssyni og Steingrími Snorrasyni. Fyrirtækið er í dag í eigu hjónanna Esterar S. Helgadóttur og Magnúsar Sigurðssonar. Er hann einnig framkvæmdastjóri fyrirtækisins og hefur verið frá árinu 2002. Þau eru til húsa að Flötum 19 þar sem Netagerð Ingólfs var til húsa á sínum tíma. Útbúið vistlegar skrifstofur á efstu hæð þar sem alltaf er heitt á könnunni og þau til þjónustu reiðubúin fyrir einstaklinga og fyrirtæki.
Starfsmenn eru 46 með fólki á skrifstofu og steypustöð sem starfar allt árið auk sumarmanna. Steini og Olli er alhliða byggingarverktaki með mikla reynslu og og margir starfsmenn með langan starfsaldur. ,,Það sýnir gagnkvæmt traust og styrkleika fyrirtækisins að hafa notið starfskrafta þessara öflugu starfsmanna um áratugaskeið, Hópurinn er samsettur af húsasmiðum, rafvirkjum, málurum og múrurum auk nema í iðnnámi. Það er því mikil þekking til staðar sem gerir það að verkum að við erum tilbúin í öll verkefni sem til falla. Jafnframt er fyrirtækið að vinna með undirverktökum í pípulögnum, jarðvinnu, rafvirkjun, blikki og málun og nær það samstarf yfir marga áratugi,‘‘ segir Magnús.
Þjónusta við Vestmannaeyjar
,,Við lítum á það sem eina af meginskyldum okkar að þjónusta sem best sveitarfélagið Vestmannaeyjar og uppfylla ávallt væntingar viðskiptavina um gæði, kostnað og tíma. Stefnan er að skapa jákvætt, skemmtilegt og hvetjandi starfsumhverfi þar sem allir hafa tök á að njóta sín í starfi. Það er gaman frá því að segja að í hópnum eru karlar og konur þó svo konurnar séu mun færri. Talsverður fjöldi kemur frá útlöndum og hafa ákveðið að setjast hér að.‘‘
Steini og Olli hefur annast fjölda verkefna í Vestmannaeyjum, íbúðarhúsnæði af ýmsum gerðum, einbýli jafnt sem fjölbýli, verslunarhúsnæði, atvinnuhúsnæði, sérhæfðu húsnæði fyrir sjávarútveginn, frystiklefa, hrognahús o.fl. og ýmsar opinberar byggingar fyrir ríkissjóð og sveitarfélagið.
Vel lukkuð endurbygging
Nýjasta verkefnið á íbúðarmarkaði er endurbygging gömlu Slökkvistöðvarinnar og Fiskasafnsins á Heiðarveginum. Þar er lítið fjölbýli með 10 íbúðum á efri tveimur hæðum og fjögur rými á jarðhæð til ýmiss/a nota. Lukkaðist virkilega vel og höfum við fengið mjög jákvæð og uppbyggileg viðbrögð frá nýjum eigendum og bæjarbúum almennt. Það er því mikil ánægja okkar megin með þetta verkefni og auðvitað aðalatriðið þegar við finnum þessi yndislegu viðbrögð frá öllu því fólki sem hefur fest kaup á þessum eignum,‘‘ segir Magnús.
Í lok síðasta árs hófust framkvæmdir við nýtt fjölbýli að Tangagötu 10 á grunni húss sem var rifið. ,,Þetta hefur gengið vel frá því við byrjuðum í haust. Tíðarfar verið nokkuð hagstætt utan nokkurra vikna þar sem rokið fór óþarflega hratt yfir. Kjallarinn er uppsteyptur en þar verður bílageymsla og jarðhæð langt komin. Á jarðhæðinni verður aðalinngangur og geymslur fyrir íbúðir á efri hæðum hússins. Jafnframt er gert ráð fyrir rúmlega 300 fm þjónusturými sem getur hýst ýmsan rekstur. Íbúðirnar verða 74 til 178 fm og stærstu íbúðirnar eru á 4. og 5. hæð. Tveggja til þriggja herbergja með góðum svölum. Vel útbúnar að innan sem utan. Þetta er mjög spennandi verkefni á besta stað við höfnina. Við finnum fyrir miklum áhuga og geta áhugasamir haft samband við okkur og Guðjón Hjörleifsson löggiltan fasteignasala. Áætlanir gera ráð fyrir að þessu verkefni að Tangagötu verði lokið vorið 2027,‘‘ segir Magnús.
Margt framundan
Framundan er uppbygging íbúðarhúsnæðis á reit gamla leikskólans Rauðagerði að Boðaslóð 8 til 10. Unnið er að gerð deiliskipulags og gert er ráð fjórum tveggja hæða fjölbýlishúsum með fjórum til fimm íbúðum. ,,Við vonumst til að á seinni hluta ársins verði mögulegt að hefja framkvæmdir á lóðinni en fyrst þarf að fjarlægja gamla Rauðgerði. Undirbúningur er í nánu samstarfi Vestmannaeyjabæ og berum við miklar vonir til þess að þarna rísi áhugaverður íbúðakjarni fjögurra aðskilinna húsa með fallegu og hentugu íbúðarhúsnæði. Staðsetningin er virkilega spennandi í grónu hverfi sem er staðsett vel miðsvæðis,‘‘ segir Magnús,
Af fyrri verkefnum síðustu ára nefnir Magnús uppbyggingu Ísfélagsins við dæluhús fyrir hráefnistanka, nýtt hrognahús og endurbætur að utan sem innan á fiskimjölsverksmiðju félagsins. ,,Samstarfið með Ísfélaginu hefur verið mjög gott og ánægjulegt að vinna með forsvarsmönnum fyrirtækisins við þessi verkefni sem eru í gangi hjá þeim. Við erum einnig að vinna reglulega að ýmsum verkefnum með sveitarfélaginu, í endurbótum og viðhaldi eigna sveitarfélagsins. Líka fyrir ríkið sem á eignir í Vestmannaeyjum. Einnig höfum við byggt og erum að byggja einbýlishús fyrir fjölskyldufólk sem veðjar á uppbyggingu og framtíð Eyjanna. Það er skemmtilegt að taka þátt í slíkum verkefnum þegar ungt fólk er að setja sig niður í hér í bæ,‘‘ segir Magnús sem er bjartsýnn á framtíðina.
Bjartsýn á framtíð Eyjanna
,,Við hjá Steina og Olla erum bjartsýn á framtíð Eyjanna og viljum vera þátttakendur í uppbyggingunni sem hér er, bæði hjá íbúum og fyrirtækjum. Ekkert verkefni er of stórt fyrir okkur og hvetjum við fólk til að setja sig í samband við okkur um verk sem er í undirbúningi. Við erum alhliða byggingaverktaki með mikla reynslu í að taka verkefni að okkur að öllu leyti og sjá um alla þætti. Erum við með iðnaðarmenn á okkar vegum, ýmist innan okkar fyrirtækisins eða undirverktaka sem hafa reynsluna sem til þarf.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst