„Ný lægð nálgast úr suðri og fer lægðarmiðja hennar norður yfir landið vestanvert í dag. Óveðrið heldur áfram með rauðum viðvörunum sem gilda fyrir nær allt landið. Búist er við skörpum veðraskilum yfir vestasta hluta landsins fyrripart dags.
Austan megin við skilin heldur sunnan óveðrið áfram og mun geisa á stærstum hluta landsins, sunnan 25-30 m/s með snörpum og varasömum vindhviðum og talsverðri rigningu á köflum. Vestan þeirra verður mun hægari vindur, kalt og snjókoma, sérstaklega á Vestfjörðum og Breiðafirði og hluta Faxaflóa,“ segir á vef Veðurstofunnar, vedur.is.
Já, átökin eru mikil eins og þessi mynd Stefáns Geirs sem hann tók úti á Hamri í morgun sýnir. Hressilega hefur blásið á Stórhöfða, 10 mínútna meðalvindur komist í 40 m/s og hviður upp í 50 m/s. Öldumælir við Landeyjahöfn sló í tólf metra klukkan 09.39 í morgun og aftur í rúma tíu rétt fyrir kl. 12.00. Ölduspá gerir ráð fyrir lækkandi ölduhæð þegar líða tekur á daginn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst