Hitalagnir undir Hásteinsvöll voru til umfjöllunar á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja árdegis. Bæjarráð fjallaði um erindi frá Ellerti Scheving Pálssyni, f.h. ÍBV-íþróttafélags, þar sem óskað var eftir aukafjárveitingu til að fjármagna hitalagnir undir gervigrasið sem lagt verður á Hásteinsvöll fyrir næsta sumar.
Fram kemur í erindinu að það sé mat ÍBV og annara fagaðila að nauðsynlegt sé að koma hitalögnum undir völlinn sem síðar verða nýttar í upphitun vallarins, en ekki er gert ráð fyrir hitalögnum í útboðsgögnum Vestmananeyjabæjar. Ef setja á hitalagnir undir völlinn þarf það að gerast áður en jöfnunarlag og grasmottan eru sett niður og liggur það fyrir að töluvert hagræði er fyrir Vestmannaeyjabæ að gera það núna frekar en síðar.
„Með því að hafa hitalagnir klárar undir vellinum frá upphafi gefst einnig tími til að leita að leiðum til að hita hann upp og finna leiðir til að halda rekstrarkostnaði í lágmarki við að halda vellinum frostfríum. Í Vestmananeyjum er engin reynsla af nýtingu gervigrasvallar utandyra og því mikilvægt að hitalagnir séu til staðar ef nýting vallarins verður ekki eins og bæjaryfirvöld leggja upp með.
Undirritaður fyrir hönd ÍBV íþróttafélags, óskar eftir aukafjárveitingu af hálfu Vestmannaeyjabæjar að upphæð kr. 20.000.000 við að setja hitalagnir undir gervigras á Hásteinsvöll. ÍBV íþróttafélag hefur fengið tilboð í lagnir, fengið nákvæmar upplýsingar um framkvæmdina og er tilbúið til að framkvæma verkið í samráði og samstarfi við Vestmannaeyjabæ.” segir í erindi Ellerts Scheving Pálssonar.
Í niðurstöðu bæjarráðs segir að verkið sé nú í útboði án hitalagna. Bæjarráð mun funda með viðkomandi aðilum og leggja fram gögn um framkvæmdina. Formlegri afgreiðslu erindisins er frestað til næsta fundar bæjarráðs í desember.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst