Ísfisktogarinn Vestmannaey VE kom til löndunar í Vestmannaeyjum í dag. Skipið er með fullfermi og er aflinn langmest þorskur. Rætt er við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á vef Síldarvinnslunnar.
„Þessi túr var lengri en oft áður eða rúmir fimm sólarhringar. Það var heldur lítið að fá á miðunum suður af landinu. Við byrjuðum á Pétursey og síðan var farið á Vík, Ingólfshöfða, Öræfagrunn, í Sláturhúsið og á Papagrunn. Á öllum þessum miðum var dapurt. Við enduðum á að fara austur á Örvæntingu og þar var þokkalegt kropp. Síðan var góð veiði utan Fótar. Við enduðum túrinn í kolaskrapi út af Hvalnesi. Túrinn var óvenjulangur eða fimm sólarhringar en það kemur ekkert á óvart. Það minnkar nefnilega oft aflinn á okkar hefðbundnu miðum þegar líður á sumar eða þegar fer að hausta og þá er lengra að sækja. Afli hefur verið góður í sumar og því eru það dálítil viðbrigði þegar tregast á þeim miðum sem við höfum mest verið á. Nú eru kvótaáramót í nánd og áhersla verður lögð á að skrapa upp sem mest af kvótanum áður en þau ganga í garð,” segir Birgir Þór.
Vestmannaey mun halda til veiða á ný á morgun. Ísfisktogarinn Bergur VE hefur ekki verið að veiðum undanfarnar fimm vikur en hann mun halda til veiða í dag. Ýmsu viðhaldi hefur verið sinnt í Bergi á meðan hann hefur verið frá veiðum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst