Enn eru pysjurnar að fljúga í bæinn og láta dagatalið eða veðrið ekkert trufla sig í þeim efnum. Í dag var komið með 239 pysjur í pysjueftirlitið og er það svipað og verið hefur síðustu daga. Heildarfjöldi pysja er kominn upp í 2969 og ekki spurning að nú í vikunni verða þær komnar yfir 3000. Líklega náum við því marki strax á morgun. Minnsta pysjan sem komið hefur verið með í eftirlitið var vigtuð í dag og reyndist vera aðeins 137 grömm að þyngd. Hún var ekki aðeins mjög létt heldur einnig mjög dúnuð. Fékk hún gott heimili og með góðri umönnun ætti hún að vera klár í slaginn eftir nokkra daga.
Meðan pysjurnar eru enn að berast verður áfram opið á safninu kl. 10 -17 alla daga.