Illa hefur gengið að fá rökstuðning frá HS Veitum fyrir miklum hækkunum fyrirtækisins á gjaldskránni í Eyjum umfram önnur svæði. Orkustofnun gat ekki varpað skýru ljósi á gjörðir fyrirtækisins, sem hefur einokun á þessum markaði. Vísuðu forráðamenn stofnunarinnar á umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið.
Í lok síðasta mánaðar sendi Eyjar.net fyrirspurnir vegna málsins í umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið.
Í svari umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytisins til Eyjar.net segir að ráðuneytið hafi til skoðunar hvort að umbeðnar upplýsingar séu upplýsingar sem rétt sé að takmarka á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga og hefur óskað eftir afstöðu HS Veitna til beiðni Eyjar.net, í samræmi við 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, en þar er kveðið á um að áður en tekin sé ákvörðun um aðgang að gögnum sem geta varðað einkahagsmuni getur stjórnvald, eða sá sem hefur beiðni til afgreiðslu, skorað á þann sem upplýsingar varða að upplýsa hvort hann telji að þær eigi að fara leynt.
Hafa 7 daga til að svara erindinu
Ráðuneytið hefur veitt HS Veitum 7 daga frest til að svara erindinu. Áréttað er að ráðuneytið er ekki bundið af afstöðu HS Veitna til beiðninnar og mun leggja sjálfstætt mat á hana. Farið verður hratt og vel í þá vinnu og verður fyrirspurn þinni svarað þegar ákvörðun ráðuneytisins liggur fyrir, segir í svari ráðuneytisins.
Hér að neðan má sjá 9. gr. upplýsingalaga.
9. gr. Takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna.
Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga [virka] 1) fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.
https://eyjar.net/lodin-svor-orkustofnunar-til-eyjamanna/
https://eyjar.net/kalda-vatnid-468-dyrara-i-eyjum/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst