Vestmannaeyjabær hefur ráðið Rannveigu Ísfjörð í starf byggingarfulltrúa á tæknideild. Starfið var auglýst laust til umsóknar þann 4. desember sl.. Umsóknarfrestur var til 23. desember og barst ein umsókn um starfið.
Í tilkynningu á vef Vestmannaeyjabæjar segir að Rannveig hafi lokið B.Sc gráðu í byggingartæknifræði á sviði framkvæmda og lagna frá Háskólanum í Reykjavík árið 2012 og M.Sc gráðu í byggingarverkfræði með sérhæfingu í framkvæmdastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík árið 2015. Einnig útskrifaðist hún úr APME verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík árið 2018 og lauk D vottun í verkefnastjórnun á sama tíma (IPMA).
Rannveig starfaði síðast hjá TPZ sem byggingarverkfræðingur, í alhliða hönnun húsa, skipulagsuppdráttum, aðaluppdráttum og séruppdráttum byggingarnefndarteikninga. Einnig sinnti hún framkvæmda eftirliti og aðal- og séruppdráttum á sviði burðarþols og lagna. Áður starfaði Rannveig sem byggingarverkfræðingur hjá Mannvit á sviði mannvirkja og umhverfis.
Rannveig er 38 ára og er gift Pálma Harðarsyni, saman eiga þau 4 börn. Vestmannaeyjabær býður Rannveigu velkomna til starfa, en hún mun hefja störf á næstunni, segir í tilkynningunni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst