Þorgerður Ólafsdóttir, myndlistarkona hefur beint sjónum sínum að Vestmannaeyjum í myndlist sinni á síðustu tíu árum. Þorgerður sýndi m.a. verkið Eldfell Stafróf I á sýningunni Til fundar við Eldfell í Safnahúsinu nú í haust. Það á rætur sínar að rekja til útskriftarverkefnis Þorgerðar frá Glasgow listaháskólanum árið 2013 þegar hún vann með myndir Einars B. Pálssonar frá gosinu á Heimaey. Nú kemur út bókin Esseyja í tilefni af 60 ára afmæli Surtseyjar sem byggir m.a. á rannsóknarferð Þorgerðar til Surtseyjar sumarið 2021.
Þorgerður sýnir um þessar mundir tvö verk, afsteypu af fótspori frá Surtsey, annað er í Kömbunum.
Áhugi Þorgerðar á umhverfi og náttúru kemur skýrt fram í verkum hennar. Hvernig tími hverfist um staði og hvernig við skynjum þá. Jarðfræðin er ekki langt undan enda starfaði Þorgerður sem landvörður um skeið. „Alveg frá því að ég vissi af Surtsey hefur mér fundist sem að allar sögur af henni séu eins og uppspuni og það var ótrúlegt ævintýri að fá að fara til eyjunnar. Ég hef dvalið á nokkrum viðkvæmum og einstökum svæðum á hálendinu en upplifun af umhverfi Surtseyjar var öll önnur,“ segir hún.
Þegar Þorgerður vann að lokaverkefninu sínu í Glasgow, og var að skoða eldgosið á Heimaey og þróun þess, má segja að hún hafi þvælst af leið í rannsóknum sínum. „Ég rakst á grein um Frakkana þrjá sem stigu fyrstir á land í Surtsey, áður en eyjan fékk nafnið sitt. Fyrirsögnin var Frakkey, með stóru upphrópunarmerki og þar með var áhugi minn vakinn.“
Það hvarflaði aldrei að Þorgerði að hún fengi rannsóknarleyfi til að fara til Surtseyjar sem myndlistarmaður. Þó nokkrir listamenn hefðu farið undir öðrum hatti, t.a.m. Hildur Hákonardóttir sem réði sig sem matráðskona í leiðangur þegar verið var að smíða Pálsbæ hinn fyrri, en naut þess að fylgjast með Jólni sem gaus skammt frá. Vegna áherslna á gagngerar vísindalegar rannsóknir á eyjunni átti Þorgerður erfitt með að sjá fyrir sér hvernig þessi draumur gæti ræst, að ganga um Surtsey.
„Vinkona mín hvatti mig hins vegar til að sækja um rannsóknarleyfi, ég hafði ekki hugleitt að gera það. Ég ákvað að sækja um með áherslu á vægi listrannsókna þar sem ég var fyrst og fremst að skoða manngerð ummerki á eyjunni og upplifun af landslagi Surtseyjar. Úr varð að ég fékk leyfi og fór samferða jarðfræðileiðangrinum sumarið 2021. Ég var að vinna að sýningu fyrir Umhverfisstofnun, sem átti að vera í samtali við fastasýninguna í Surtseyjarstofu, sem er á efri hæð Eldheima. Eftir heimsókn mína í Surtsey vissi ég að verkefnið væri stærra og ein sýning myndi aldrei duga til að miðla öllu því sem ég sá og upplifði á eyjunni,“ segir Þorgerður.
Verk Þorgerðar á sýningunni Til fundar við Eldfell.
Allt sem Þorgerður taldi sig vita um Surtsey, skynja eða hafði gefið sér um eyjuna, breyttist í kjölfar þess að dvelja þar í þrjá daga. Hún segir að það hafi verið eins og vera stödd í vísindaskáldsögu. „Ég var fyrst og fremst að kynnast eyjunni með því að ganga um hana, taka ljósmyndir, horfa og njóta. Heimsækja ákveðna staði aftur og aftur. Þeir voru síbreytilegir vegna veðursins, það var einstaklega kalt og hvasst þessa júlídaga,“ segir Þorgerður.
Þorgerður ætlaði að ljósmynda steingerðan fótsporaslóða sem vitað var um. „Á meðan á dvöl okkar stóð uppgötvuðum við ný fótspor sem höfðu hreinlega birst þarna fyrr um veturinn, því efsta gjóskulagið hafði horfið í burtu. Ég, ásamt Magnúsi Frey Sigurkarlssyni, landverði í Surtsey, og Hannah Babel, gengum fram á fyrsta fótsporið í þessum nýja slóða. Sporið er smátt, skóstærð 40 og ég hef reglulega leitt hugann að því hvort þetta gæti jafnvel verið fótspor Elínar Pálmadóttur, blaðakonu“ segir hún sposk á svip.
Ritverkið Esseyja er í senn um ferðalag Þorgerðar í Surtsey og veitir innsýn á stað sem margir vita af en þekkja lítið. Þorgerður fékk fimm fræðikonur til að leggja verkefninu lið þar sem hugmyndum er velt upp hvernig staður verður til í menningarlegum skilningi, hvernig er að upplifa landslag versus að nema land. Þorgerður segir að það séu nokkrar ástæður hvers vegna Surtsey veki áhuga. „Þetta er ungt land, nýfædd einangruð eyja og þar sem ekki er hægt að ferðast þangað er hún forboðin og sveipuð mikilli dulúð. Elín Edda, hönnuður bókarinnar náði að lýsa bókinni einna best held ég, þegar hún sagði að Esseyja væri einkonar farmiði til Surtseyjar,“ segir Þorgerður.
Fallegar myndir prýða bókina.
Segulsvið Surtseyjar hefur togað í Þorgerði og leitt hana áfram. Esseyja er tilraun til að ná betur utan um verkefnið sem hófst fyrir tíu árum. Eins og áður segir þá hefur sýning Þorgerðar Séstey / Hverfey staðið yfir í Surtseyjarstofu í Eldheimum frá nóvember 2021. Þá er hún með tvö verk á listahátíðinni Sequences, annað verkið er á sýningunni Can’t See í Kling&Bang í Marshallhúsinu í Reykjavík og þá er útlistaverkið Spor ofarlega í Kömbunum á Hellisheiði. Öll tengjast verkin Surtsey.
Verkið Spor er afsteypa af fótspori sem fannst í Surtsey. Verkinu var komið fyrir á stöpli nálægt svæði sem nefnist Drottningarstæði, rétt áður en keyrt er niður af Hellisheiðinni til Hveragerðis. Þessi staður er með þeim betri til að sjá Surtsey ofan af landi að sögn Þorgerðar. „Það er ekki langt síðan ég uppgötvaði það sjálf hve vel Surtsey sést frá Suðurlandi. Ég vissi alltaf af Vestmannaeyjarklasanum en áttaði mig ekki á því hve vel Surtsey sést líka, hún er svo langt frá eyjunum þegar horft er frá Kömbunum. Mér fannst þetta dýrmætur möguleiki, að ná einhvern veginn að innleiða Surtsey meira inn í landslagsvitund okkar á stað sem svo margir eiga leið um daglega. Þarna eru bílastæði og það er vegaslóði að útsýnisskífu sem er horfin en stöpullinn stendur enn. Ég leiddi hann framhjá mér í sex mánuði þangað til það rann upp fyrir mér að verkið gæti að sjálfsögðu staðið á honum.“
Verkið Spor vísar í átt að Surtsey og Þorgerður sér það sem skref að stærra verkefni um þennan stað í framtíðinni. Esseyja er svo nokkurs konar varða um verk Þorgerðar, allt það sem er í bókinni er eitthvað sem hún hefði viljað vita um Surtsey. Hennar von er að Esseyja opni lesendum greiðari aðgengi að heimi Surtseyjar og hugmyndum tengdum henni, um tilvist og framtíð hennar.
Á næsta ári opnar sýning Þorgerðar í samstarfi við Gunndísi Ýr Finnbogadóttur, myndlistarkonu í Gerðarsafni, undir yfirskriftinni Óstöðugt land. Þær hafa tekið viðtöl við fólk sem hafa farið út í Surtsey. Þar nálgast þær viðfangsefnið út frá upplifun og líðan fólks og reynslu þess af umhverfi eyjunnar. Þorgerður segir að þetta sé kaflaskipt ferðalag og Esseyja sé hluti af því og það haldi svo áfram. Hver veit hvar það endar.
Bókin veitir innsýn í rannsóknar á Surtsey á mjög aðgengilegan hátt.
Greinina má einnig lesa í 22. tbl Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst