Lítilsháttar reykur barst um klefagang í Herjólfi fyrir um 50 mínútum en þá átti skipið eftir tæplega klukkutíma siglingu til Eyja. Viðvörunarkerfi var ræst og bað skipstjóri farþega að fara upp á efsta þilfar og út á dekk. Og óskað var aðstoðar Landhelgisgæslunnar.
Fljótlega kom í ljós að reykurinn kom frá reimum í loftræstikerfi og stafaði engin hætta af honum. Var aðstoð Gæslunnar afturkölluð og skipið hélt áfram siglingu sinni til Vestmannaeyja. Er nú komið til Eyja og er áfallateymi til taks á bryggjunni fyrir þá sem þess óska.
Samkvæmt upplýsingum farþega um borð stóð áhöfnin sig á allan mjög vel og vann faglega að því að sinna farþegum. Eigi hún hrós skilið.
Í sama streng tóku fulltrúar Eimskips, sem rekur Herjólf, sögðu að áhöfnin hefði á allan hátt staðið rétt að og farið eftir rýmingaráætlun.
Mjög vont veður er á leiðinni og Herjólfur langt á eftir áætlun en farþeginn sem rætt var við sagði það lán í óláni að skipið var komið að nokkru leyti í skjól af Eyjum þegar óhappið varð.