Ingibergur Óskarsson heiðraður af Sjómannadagsráði:
„Ingibergur hefur unnið óeigingjarnt og mikið starf við skráningu þeirra sem fóru siglandi gosnóttina fyrir 52 árum til þorlákshafnar. Hvaða bátar og skip komu við sögu. Áhafnir bátanna, myndir og sögur þeirra sem um er fjallað. Öll heimildavinnan.
Það er ótrúlega gaman og gefandi að skoða þetta allt saman. Fyrir mann eins og mig sem upplifði þessa tíma annarsstaðar á landinu, er ómetanlegt að sjá þessa framsetningu á sögum þeirra sem fóru nóttina örlagaríku 1973,“ sagði Valmundur Valmundsson þegar hann afhenti Ingibergi heiðursskjöld Sjómannadagsráðs Vestmannaeyja sem á stendur; Vestmannaeyjum 23. janúar 2025 ,,Kæri Ingibergur Óskarsson, Sjómannadagsráð Vestmannaeyja þakkar þér fyrir ómetanlegt framlag þitt til verkefnisins 1973- allir í bátana. Lifðu heill.
Amman átti fjórar dætur í Eyjum
„Hvað mig persónulega varðar man ég þessa nótt eins og gerst hafi í gær. Þann 23. janúar 1973 var ég 11 ára gamall. Bjó hjá ömmu og afa á Siglufirði. Um fimm leytið um morguninn vakna ég við að amma gamla er komin á stjá í eldhúsinu. Farin að skerpa á könnunni og nota bene búin að kveikja á viðtækinu. Í þessa tíð var ekki útvarpað á nóttunni. Þetta þótti mér skrýtið og fer fram í eldhús til ömmu og heyri þá að byrjað sé að gjósa í Heimaey. Amma og afi áttu fjórar dætur þá í Eyjum. Þær voru Stína hans Gaua á Hvoli, Bidda hans Baldurs í Gúanó. Ásta hans Svenna vörubílstjóra og Eygló hans Bedda smiðs,“ sagði Valmundur. Hafði ömmu hans dreymt illa um nóttina en eftir hádegi fengu þau fréttir af fjölskyldunum sem allar björguðust upp á land.
Dugnaður og elja
Næst beindi Valmundur orðum sínum að manni dagsins, Ingibergi Einarssyni. „ Kærar þakkir Ingibergur fyrir þína faglegu og mikilvægu vinnu við skráningu allra þessara upplýsinga og öflun efnis á síðuna 1973, allir í bátana. Það er ekki sjálfgefið að einstaklingur taki að sér alla þessa vinnu sem þetta er orðið. Ingibergur hefur sýnt ótrúlega þolinmæði og þrautseigju, segja mér þeir sem til þekkja. Eftir að hafa skoðað hvað liggur að baki tek ég heilshugar undir með þeim. Ótrúlegt að þetta sé komið í þennan farveg sem það er. Þeim er svo sem ekki fisjað saman afkomendum Óskars Matt og Þóru. Hvar sem þau og þeirra afkomendur koma við sögu sér maður þann mikla dugnað og elju sem einkennir þau og þeirra ættboga.
Það er mér heiður fyrir hönd Sjómannadagsráðs Vestmannaeyja að afhenda þér þessa viðurkenningu sem þakklætisvott sjómanna í Vestmannaeyjum fyrir þitt óeigingjarna og vel svo frambærilega brautryðjandastarf til að þessi hluti af sögunni um brottflutning heils bæjarfélags á einni nóttu glatist ekki heldur geymist og verði til fyrir komandi kynslóðir þeim til fróðleiks og upprifjunar. Þessi saga má alls ekki glatast né gleymast.
Á skildinum stendur; Vestmannaeyjum 23. janúar 2025 ,,Kæri Ingibergur Óskarsson, Sjómannadagsráð Vestmannaeyja þakkar þér fyrir ómetanlegt framlag þitt til verkefnisins 1973- allir í bátana. Lifðu heill.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst