Efni standa til þess að stigin séu spor í salsadansi í vélarrúmi Gullbergs VE-292 þegar þannig stendur á. Víst er að fá ef nokkur önnur skip í íslenska flotanum eru mönnuð til slíkra hluta.
Reyndar á það kannski við um allt Evrópska efnahagssvæðið og þótt víðar væri leitað að vandfundnir eru vélstjórar sem hafa tileinkað sér dans undir áhrifum menningar á Spáni, í Karabíahafinu og Suður-Ameríku.
Gullberg er hins vegar ekkert venjulegt skip. Það er áhöfnin heldur ekki.
Þetta er annars inngangur að framhaldsfrásögn um hrókeringar í Vinnslustöðvarflotanum. Við höfum til að mynda fjallað áður á þessum vettvangi um að Örn Friðriksson, yfirvélstjóri á Kap VE-4, hafi fært sig síðastliðið sumar yfir á Hugin VE-55 og að Ólafur Már Harðarson hefði tekið við af Erni um stund en verið svo ráðinn yfirvélstjóri á Gullbergi.
Þá víkur sögunni að umfjöllunarefni dagsins, tvíburabræðrunum og vélstjórunum Halldóri Gústafi og Theodóri Hrannari Guðmundssonum. Þeir störfuðu í vélarrúmi Kap, Theodór sem fyrsti vélstjóri en Halldór sem annar vélstjóri. Báðir færðust upp um þrep í ábyrgðarstiganum þegar Ólafur Már fór á Gullberg.
Svo var Kapinni lagt og nú eru tvíburarnir komnir í áhöfn Gullbergs og að sjálfsögðu í vélarrúmið þar, Theodór sem fyrsti vélstjóri og Halldór sem annar vélstjóri. Þar með hefur líka salsagengið sameinast að nýju í Gullbergi í enn stærra og dansvænna rými en var á Kap.
– Hvað er annars verið að þvæla hér aftur og fram um salsaspor og dansandi vélstjóra? spyr nú margur lesandinn, undrandi og óþolinmóður.
Hér er svarið.
Theodór:
„Ég var fyrst í afleysingatúr á Ísleifi VE á makrílveiðum 2017. Á árinu 2018 fór ég í afleysingatúr á Kap á kolmunna og var á dekki. Þá var ég hléi í námi í Vélskólanum í Reykjavík og fór svo aftur í skólann. Þá sótti ég námskeið í salsadansi og kynntist Óla Má, núverandi yfirvélstjóra á Gullbergi, og hitti hann líka í skólanum. Hann hefur dansað salsa á fullu gasi í mörg ár og er þar reynslubolti líka, ekkert síður en í vélfræðinni.
Við vinnum sem sagt saman og höfum líka dansað saman!
Eftir skólann fór ég í fast pláss á Kap sem fyrsti vélstjóri.“
– Hvað með þig, Halldór, er salsadans líka í reynslubankanum þínum?
Halldór:
„Nei, ég prófaði salsa en fann mig ekki þar. Ég er hins vegar nýbyrjaður í golfi og viðurkenni að vera kominn með golfbakteríu í kroppinn. Teddi bróðir hefur hins vegar spilað golf árum saman.“
Halldór og Theódór eru fæddir og uppaldir Reykvíkingar en eiga ættir að rekja til Vestfjarða og voru oft þar vestra á sumrin. Faðir þeirra var áður á sjó á Reykhólum, Þingeyri og Ísafirði, meðal annars sem vélstjóri á Karlsey BA og Framnesi ÍS. Hann hætti sjómennsku þegar drengirnir voru barnungir.
Afi tvíburanna í föðurætt, Skúli Sigurðsson, var vélfræðingur hjá Eimskip og verkstjóri hjá Haraldi Böðvarssyni á Akranesi. Afi þeirra í móðurætt var Björn Elías Ingimarsson skipstjóri og útgerðarmaður. Hann var með Mími ÍS-30 og Finnbjörn ÍS-37.
Síðast en ekki síst ber að nefna til sögunnar langafann í móðurætt, Ingimar Finnbjörnsson skipstjóra og útgerðarmann. Sá var í hópi stofnenda Hraðfrystihússins í Hnífsdal sem síðar sameinaðist Gunnvöru og varð Hraðfrystihúsið Gunnvör – HG í Hnífsdal.
Af heimasíðu Vinnslustöðvarinnar – vsv.is þar sem nánar er fjallað við Halldór og Theódór.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst