Á dögunum var kynning á niðurstöðum starfshóps um fýsileika jarðganga til Vestmannaeyja. Skýrsla hópsins gefur til kynna að tilefni sé til frekari rannsókna á jarðlögum við Vestamannayjar með jarðgangnagerð í huga. Þetta eru afar góðar fréttir enda bættar samgöngur milli lands og Eyja verið baráttumál ótal lærðra og leikna síðustu áratugi. Nú hyllir í áhugaverðan kost sem gæti bætt samgöngur svo um munar og gert búsetu í Vestmannaeyjum enn meira aðlaðandi. Okkur í Vinstri grænum finnst einboðið að kanna frekar fýsileika jarðgangna milli lands og Eyja.
Það myndi tvímælalaust vera afar mikils virði fyrir samfélagið að fá jarðgöng. Ekki aðeins myndu samgöngur milli lands og Eyja verða greiðari heldur myndi tími í ferðalög minnka töluvert og það ferðafrelsið sem þeim fylgdi löngu tímabært. Atvinnu- og þjónustusvæði beggja vegna ganga stækkar með auknum möguleikum auk þess sem útflytjendur ferskra afurða njóta meira öryggis í vöruflutningum. Vestmannaeyingar þekkja vel þá fyrirhöfn og kostnað sem fylgir því að sækja heilbrigðisþjónustu upp á land, allt frá tannréttingum til barnsfæðinga. Aukið aðgengi og ferðafrelsi er einnig kvenfrelsismál og myndi gera barnshafandi konum kleift að vera heima allt að fæðingardegi barna og auka þannig samveru fjölskyldna og draga úr þeim tíma sem konur væru fjarri vinnu og heimili.
Með göngum yrði bylting á aðgengi og sjálfsögð þjónusta mun tryggari auk þess sem samfélagslegur ávinningur gæti orðið töluverður með tilliti til atvinnumynsturs og lífsgæða. Vinstrihreyfingin grænt framboð mun beita sér fyrir því að fjármagn til verkefnisins verði tryggt. Í upphafi þær 60 milljónir sem þarf í fyrsta skref rannsóknar og í kjölfarið það fjármagn sem þarf til að halda áfram rannsóknum ef ákvarðanir verða teknar um að halda í næsta rannsóknarþrep. Það er augljóst að lítið hefur gengið að bæta samgöngur hingað til og sem dæmi eru margir veitingastaðir lokaðir yfir vetrartímann vegna ótryggra samgangna.
Jarðgöng gætu aukið samlegðaráhrif við þjónustu og stofnanir upp á landi og þannig gert fólki kleift að sækja enn fjölbreyttari þjónustu og um leið eiga áfram gott líf í Eyjum. Í kjölfar opnunar ganga til Eyja er líklegt að íbúum fjölgi sem þýðir aukna fjölbreytni og festu í félags-, menningar- og íþróttalífi íbúa. Vinstri græn styður því heilshugar frekari athuganir á þessum möguleika á stórbættum samgöngum milli lands og Eyja.
Helga Tryggvadóttir, náms- og starfsráðgjafi frá Vestmannaeyjum, 4. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi.
Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, kennari og oddviti VG í Suðurkjördæmi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst