Í nýjum fjárlögum er ákvæði um 50% hækkun kolefnisgjalds, sem á að skila ríkinu 7,6 milljörðum króna. Hefur gjaldið tífaldast á 14 árum að því er kemur fram í grein Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS á visir.is. Segir Heiðrún Lind að sjávarútvegur greiði nú þegar 30 til 35% af öllu kolefnisgjaldi. Með breytingunni hækki umhverfisskattar frá fiskiskipaflotanum úr 2,2 milljörðum króna í 4,4 milljarða króna.
Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins segir að með þessu sé hið opinbera að sælast enn dýpra í vasa landsmanna og eins og stundum áður bitnar það harðast á landsbyggðinni. „Þessi 50% hækkun þýðir 7,8 krónur á hvern olíulítra. Skipin okkar, Sigurður, Heimaey og Sólberg eyða 12.000 til 15.000 lítrum á sólarhring á togveiðum, hvert þeirra. Skatturinn hækkar því um 100.000 krónur á dag á hvert skip við þessa skattahækkun.
Þetta lendir líka á bræðslunum sem allar eru að verða rafvæddar. Hækkunin á að auka hvatann til að fara yfir í raforku en snýst upp í andhverfu sína. Í útgerðinni eru möguleikar á rafvæðingu ekki til og verða ekki á næstu árum eða jafnvel áratugum. Í bræðslunum, þar sem er unnt að nota græna orku eftir umtalsverðar fjárfestingar á liðnum árum, er ekki unnt að fara yfir á græna orku því hún er ekki til í landinu, svo einfalt er það. Samt sem áður ákveður þingheimur að hækka kolefnisgjaldið með þeim formerkjum að verið sé að hvetja til notkunar á grænni orku., Þetta er fyrir neðan allar hellur.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst