Verið velkomin á opnun sýningarinnar Séstey / Hverfey í Surtseyjarstofu, Vestmannaeyjum, laugardaginn 18. júní milli kl. 17.00 og 18.30 með verkum eftir Þorgerði Ólafsdóttur. Klukkan 15:30 munu Þorgerður og Magnús Freyr Sigurkarlsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, leiða gesti um sýninguna.
Á sýningunni sýnir Þorgerður ný listaverk og aðra muni samhliða fastasýningu Umhverfisstofnunnar í Surtseyjarstofu. Sýningin er unnin í samstarfi við Umhverfisstofnun sem hefur annast fastasýningu um myndun og mótun Surtseyjar frá árinu 2014 í Eldheimum, Vestmannaeyjum.
Séstey/Hverfey er hluti af stærra verkefni og listrannsókn sem Þorgerður hefur unnið að undanfarið ár í tengslum við Surtsey undir yfirskriftinni Island Fiction og lýkur með útgáfu nýs bókverks árið 2023, á 60 ára gosafmæli Surtseyjar. Fyrir verkefnið sitt sótti Þorgerður um rannsóknarleyfi til Surtseyjar og fór með jarðfræðileiðangrinum út í eyju sumarið 2021. Á meðan að dvöl hennar stóð skoðaði Þorgerður meðal annars rekaefni frá Surtsey og fótspor varðveitt í móbergi í samhengi við minjar og táknmyndir mannaldar.
Þorgerður er jafnframt í samstarfi við Umhverfisstofnun að vinna frekar með sjórekið plast og aðrar mannvistarleifar sem hreinsað verður úr eyjunni næstu árin.
Í nýlegum verkum veltir Þorgerður upp hugmyndum hvernig nýr staður verður til í menningarlegum skilningi og gerir tilraun til að kortleggja breytileika Surtseyjar út frá náttúrulegum ferlum og þeim sem við mannfólkið ýtum af stað.
,,Sökum friðunar og staðsetningar hefur komið í ljós hvað Surtsey er kjörinn mælikvarði á áhrif loftslagsbreytinga og magn plasts í umhverfinu. Í ljósmyndaseríunni Sögumenn (Storytellers) er rýnt í sögu framandsteina og sjórekins plasts. Talið er að framandsteinar sem fundist hafa á Surtsey, hafi komið með ísjökum frá Grænlandi, sokkið svo niður á hafsbotn og síðar komið upp á yfirborðið í eldgosinu sem myndaði Surtsey. Í nokkur ár hefur Umhverfisstofnun farið fyrir hreinsun á sjóreknu plasti og öðru rekaefni á Surtsey sem skolar á land. Hægt er að bera kennsl á flesta hlutina og áttað sig á því hvert fyrra hlutverk þeirra var. Aðrir hafa ferðast óravegu og umbreyst svo mikið og mótast af sögu sinni að þeir eru óþekkjanlegir í dag.
Þessir ólíku munir, framandsteinar og plast, eiga það sameiginlegt að vera samansafn af því umhverfi sem þeir hafa ferðast um þar til þeir enduðu báðir á Surtsey. Í verki sínu nálgast Þorgerður þessa muni af forvitni og spyr – ekki hvað þeir voru, heldur hvað þeir eru í dag – og hvaða sögu þeir hafa að segja.”
Sýningarnar í Surtseyjarstofu eru opnar samhliða opnunartíma Eldheima (Suðurvegur / Gerðisbraut 10, Vestmannaeyjar), milli kl. 11:00 – 17:00, alla daga.
—
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst