Þjóðhátíð Vestmannaeyja var sett í gær við hátíðlega athöfn í Herjólfsdal. Mikill fjöldi gesta tók þátt í setningarathöfninni og stór hluti gesta mætti prúðbúinn í Herjólfsdal, eins og venja er við setninguna. Eftir að Jóhann Pétursson, formaður ÍBV hafði sett þjóðhátíð, flutti Kristinn R. Ólafsson hátíðarræðuna. Séra Guðmundur Örn blessaði svo samkomuna áður en skemmtiatriði og barnadagskrá hófst. Setningin fór fram í sannkallaðri bongóblíðu í Herjólfsdal, sól og hægri golu.