Skákþingi Vestmannaeyja 2025 sem hófst 2. febrúar sl. lauk 9. mars . Keppendur voru 10 og voru tefldar níu umferðir og tók hver skák yfirleitt 2-3 klst. Mótið fór fram í skákheimili Taflfélags Vestmannaeyja að Heiðarvegi 9 á sama stað og skákkennsla barna sem TV annast fer fram á mánudögum kl. 17.30-18.30.
Skákstjóri var Sæmundur Einarsson, skákdómari. Keppendur á mótinu hafa verið á 10-12 síðustu ár og jafnan nokkur breyting í hópnum milli ára. Skákþingið varð fljótlega að tveggja manna baráttu um efsta sætið milli Sigurjóns Þorkelssonar sem er margfaldur Skákmeistari Vm. og Sæþórs Inga Sæmundarsonar 17 ára, en hann hefur tekið miklum framförum í skákinni á síðustu 2-3 árum. Úrslitin í skák Sigurjóns og Sæþórs sem lauk með sigri Sigurjóns þegar mótið var langt komið.
Skákmeistari Vestmannaeyja 2025 varð Sigurjón Þorkelsson með 8,5 vinninga í 9 skákum, í öðru sæti var Sæþór Ingi Sæmundarson með 8 vinninga og í þriðja sæti Hallgrímur Steinsson með 5,5 vinninga.
Í fjórða sæti Ágúst Ómar Einarsson með 5 vinn. og í 5.-6. sæti Auðunn Haraldsson og Arnar Sigurmundsson með 4 vinninga, í 7. sæti Arnar Bogi Andersen með 3,5 vinn. og í næstu sætum urðu Sæmundur Einarsson, Gísli Eiríksson og Þórarinn Ingi Ólafsson. Auðunn Haraldsson sem er nýfluttur til Eyja ásamt fjölskyldu tók þátt í Skákþingi Vm. í fyrsta skipti og náðu góðum árangri. Sama gildir um Arnar Boga Andersen sem er 15 ára og sýndi miklar framfarir milli ára.
Íslandsmót skákfélaga 2024-2025 seinnihluti fór fram í Rimaskóla í Reykjavík 27. febrúar til 2. mars sl. Taflfélag Vm. var með þrjár sveitir á mótinu. Eina átta manna sveit í úrvaldsdeild, eina sex manna sveit í 3ju deild og eina sex manna í 4. deild. Auk þess reyndi töluvert á varamenn. Fyrrihluti mótsins fór fram á sama stað í október 2024. Heildarfjöldi keppnissveita á mótinu var 58 og keppendur alls um 400 talsins.
Hátt í 30 keppendur að meðtöldum varamönnum, félagsmenn í TV tóku þátt í mótinu. Eftir fyrrihluta þess í október sl. var ljóst að það yrði snúið fyrir TV að halda sætum sínum í úrvalsdeild og 3ju deild.
Niðurstaðan varð sú að átta manna skáksveit TV í sex liða úrvalsdeild á Íslandsmóti skákfélaga endaði í fimmta sæti af sex og tókst í seinni hlutanum að slíta sig vel frá fallsæti. Sama verður ekki sagt um b) sveit félagsins í 3ju deild, sem var í fallsæti eftir fyrrihlutann og þrátt fyrir mikinn barning tókst ekki að lyfta sér úr fallsætinu. Það gerði stöðuna mun erfiðari að ófært var frá Eyjum keppnisdaga 1.-2. mars sl. og komust Sigurjón og Sæþór ekki til lands. Það skarð var brúað að mestu með varamönnum. TV c) lið í 4. deild varð í 11. sæti af 28 sveitum með þrjá sigra, þrjú töp og eitt jafntefli og hlaut samtals 23 vinn. af 42 mögulegum.
Segja má að úrslitin í úrvalsdeild hafi verið góður varnarsigur fyrir TV , en á sama hátt mikil vonbirgði í 3ju deild, en c) sveit TV í 4. deild hafi bætt stöðu sína milli ára. Mikill styrkleikamunur er milli keppnissveita í 4. deild , en þar koma árlega inn nýjar sveitir auk þess sem neðstu tvö lið úr 3ju deild bætast í hópinn og tvö efstu færast upp í 3ju deild. Það verður því erfitt verkefni fyrir b) og c) sveit TV að komast upp úr 4. deild 2025-2026 en á brattann skal haldið og stefnan tekin að endurheimta sæti í 3ju deild, segir í frétt frá TV.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst