Íslenska sumargotssíldin er fundin. Síldveiðiskipið Sighvatur Bjarnason, sem er eitt fjögurra skipa í umfangsmikilli síldarleit á vegum Hafrannsóknarstofnunar, fann í gær miklar torfur á Breiðasundi skammt vestan Stykkishólms. Skipstjórinn, Jón Eyfjörð, segir að sér virðist að þarna sé talsvert af síld og telur hann útlitið bjart.