Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn hafa mesta fylgið í Vestmannaeyjum þegar rúmar tvær vikur eru til þingkosninga. Þetta sýna niðurstöður könnunar sem Maskína framkvæmdi fyrir Eyjafréttir. Könnunin var gerð dagana 6-11. nóvember.
Um 55% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar “Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?” völdu annað hvort Sjálfstæðisflokkinn eða Miðflokkinn.
Samfylkingin er þriðji stærstur flokkana í Eyjum með um 13% fylgi og næst á eftir þeim koma svo Viðreisn og Flokkur fólksins með rúm 10% hvor flokkur. Framsóknarflokkurinn er rétt undir 5%. Vinstri grænir báru skarðan hlut frá borði í könnuninni, en eingöngu einn af þeim 242 sem tóku afstöðu sögðust ætla að kjósa flokkinn.
Þá er vert að benda á að einungis 12,2% þeirra sem þátt tóku eru óákveðnir.
Markmið og framkvæmd
Könnun þessi er gerð af Maskínu fyrir Eyjasýn. Könnunin var lögð fyrir íbúa Vestmannaeyja, 18 ára og eldri sem eru með skráð símanúmer annars vegar og fyrir þá sem voru skráðir í Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá hins vegar.
Könnunin var lögð fyrir á netinu, meðlimir í Þjóðgátt Maskínu fengu boðspóst og áminningar með tölvupósti og SMS skilaboðum en í Þjóðskrárúrtaki með skráð símanúmer fengu þátttökuboð og áminningar með SMS skilaboðum.
Við úrvinnslu voru svörin vigtuð til samræmis við mannfjöldatölur Hagstofunnar um kyn og aldur, til að svarhópurinn endurspegli sem best lýðfræðilega samsetningu íbúa í Vestmannaeyjum. Við vigtun svara getur birst örlítið misræmi í fjöldatölum og hlutföllum sem orsakast af námundun. Könnunin fór fram frá 6. til 11. nóvember 2024 og voru svarendur 306 talsins.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst