Blað Eyjafrétta sem kemur út í dag er eðlilega helgað sjómannadeginum sem er þessa helgi. En þar er líka að finna annað efni eins og skólaslit Framhaldsskólans í máli og myndum og handboltann. Af öðru efni má nefna strákana á Dala Rafni sem fækkuðu fötum til styrktar góðu málefni, Hafsteinn Guðnason skipstjóri segir sögur úr gosinu og hún Karítas stýrimaður er ánægð á Herjólfi. Minningar Jóns á Stöðinni frá æskuárunum í Eyjum eru aldarspegill en þar segir hann frá kaflamyndum í bíó og þegar fínu fötin urðu lifrinni að bráð.
Sjómannskonur segja frá sinni reynslu og Sindri Ólafsson segir sögu afa síns, Einars á Kap sem er mjög áhugaverð. Rifjaðir eru upp skipstapar fyrir 50, 60 og 70 árum þar sem m.a. kemur fram að 17 skip og bátar fórust við Ísland árið 1973, þar af 3 frá Vestmannaeyjum. Bæjarútgerð í Vestmannaeyjum var tilraun sem ekki gekk upp. Forsíðuna á Hörður Sigurgeirsson, sem hér rak ljósmyndastofu á síðustu öld. Fleiri myndir eftir hann eru í blaðinu tengdar sjómannadeginum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst