Fram kom á fundi bæjarráðs á miðvikudag að bæjarstjórn fól bæjarstjóra að kanna við heilbrigðisráðherra hvernig vinnu miðar við tilraunaverkefni um notkun sjúkraþyrlu til að styrkja sjúkraflutninga í landinu. Bæjarstjóri upplýsti bæjarráð um svar heilbrigðisráðuneytisins dags. 22. desember sl., þar sem m.a. kemur fram að tveggja ára tilraunaverkefni með sjúkraþyrlu á Suðurlandi hafi átt að hefjast á miðju ári 2020 þegar búið væri að tryggja fjármagn til verkefnisins. Vegna sérstakra aðstæðna í þjóðfélaginu undanfarna mánuði, hafi ekki tekist að tryggja fjármagn til verkefnisins og frekari undirbúningur hafi þannig ekki farið fram. Fækkun ferðamanna í kjölfar faraldursins hafi auk þess valdið því að þrýstingur vegna fjölda ferðamanna og slysa á Suðurlandi hefur minnkað en slíkt ástand er líklega tímabundið. Heilbrigðisráðherra hafi fullan skilning á óþreyju íbúa Vestmannaeyja eftir sjúkraþyrlu og muni áfram vinna málinu brautargengi og koma því til framkvæmda.
Bæjarráð þakkaði upplýsingarnar og hvetur heilbrigðisráðuneytið til að ráðast í tilraunaverkefni um sjúkraþyrlu á Suðurland sem fyrst.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst