Vestmannaeyjabær áréttar í tilkynningu í vikunni að öll tóbaksnotkun er bönnuð í og við húsnæði sveitarfélagsins. Sérstaklega vill Vestmannaeyjabær minna á bannið í og við Íþróttamistöðina.
Bann við tóbaksnotkun á við um allt tóbak og nær til Íþróttamiðstöðvar og lóðar sem tilheyrir henni, sjá tóbaksvarnarlög og reglugerð þar að lútandi. Mest ber á notkun munntóbaks sem fellur undir viðkomandi bann.
Tóbaksnotkun er ekki einungis heilsuspillandi heldur fylgir henni sóðaskapur þar sem sígarettustubbar og munntóbaksgrisjur lenda oft á gólfi eða gangstétt. Munntóbaksgrisjur hafa einnig fundist á bekkjum og veggjum Íþróttamiðstöðvar.
Starfsmenn Vestmannaeyjabæjar munu skerpa á tóbaksbanninu.
Skaðsemi tóbaks er óumdeilt og flestir gera sér grein fyrir áhrifum þess. Sumir telja að munntóbak sé skaðlítið en svo er ekki.
Munntóbak og annað reyklaust tóbak inniheldur nikótín sem er vanabindandi efni. Almennt má segja að reyklaust tóbak, þ.m.t. munntóbak, gefi frá sér álíka mikið nikótín og sígarettur. Yfir daginn fá þeir sem nota reyklaust tóbak að meðaltali álíka mikið og jafnvel meira nikótín í líkamann og þeir sem reykja sígarettur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst