HM karla í handbolta hefst formlega í dag með leik Frakklandi gegn Katar í Herning í Danmörku. Ísland spilar sinn fyrsta leik á fimmtudaginn n.k. gegn Grænhöfðaeyjum og fer leikurinn fram í Króatíu, en landsmenn bíða spenntir eftir því að sjá strákana mæta til leiks. Við hjá Eyjafréttum tókum púlsinn á stuðningsmönnum íslenska landsliðsins í aðdraganda mótsins og byrjuðum á að ræða við handboltakempuna Hrafnhildi Skúladóttur.
Hvernig telur þú að Íslandi muni ganga í riðlakeppninni? Við eigum eftir að komast auðveldlega í milliriðlana en mikilvægt að fara þangað með sem flest stig þannig að það verður mikilvægur leikurinn á móti Slóvenum sem verður pottþétt mjög jafn leikur. Vonandi að hann falli bara okkar megin.
Telur þú það muni hafa mikil áhrif á liðið að það vanti nokkra lykilmenn í liðið? Nei er ekki týpískt að það muni bara hafa jákvæð áhrif. Minni pressa á liðið þannig að ég held að með okkar frábæra fyrirliða þá er þetta ekki að fara að hafa áhrif.
Hvaða lið í riðlinum telur þú vera helstu ógnirnar fyrir Ísland? Slóvenía fyrst og fremst og held ég að það verði alltaf úrslitaleikurinn í riðlinum. Held að hinir tveir verði okkur frekar auðveldir og þá helst Grænhöfðaeyjar.
Hverjir eru helstu styrkleikar íslenska landliðsins að þínu mati? Frábær liðsheild og baráttuandi. Erum líka með frábæra markmenn sem skiptir miklu máli og vörnin þarf að smella á þessu móti ef við ætlum okkur langt. Mikilvægt að fá auðveldu mörkin sem koma með góðri vörn þar sem við höfum verið í smá brasi með sóknarleikinn inn á milli. Sérstaklega á móti stórum og sterkum vörnum.
Hvernig finnst þér að sjá Elliða Snæ Viðarsson sem fyrsta Eyjamannin til að vera fyrirliði íslenska landsliðsins? Finnst það frábært og skil mjög vel að hann hafi verið valinn í þetta hlutverk þar sem vandfundinn er betri karakter. Hlakka mjög mikið til að fylgjast með honum og liðinu á næstu dögum. Áfram Elliði og áfram Ísland!
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst