Nú þegar stutt er til kosninga eru mörg óákveðin og eiga erfitt með að gera upp hug sinn. Með þessum línum vonast ég til þess að geta auðveldað þér kjósandi góður að velja til vinstri með því að fara örstutt yfir kosningaáherslur VG.
Samheldið samfélag og öflug almannaþjónusta. Það felur meðal annars í sér að almannaþjónusta er fyrir okkur öll og verður ekki einkavædd frekar en innviðir. Greiðslur fæðingarorlofs og barnabóta hækka til fjölskyldna með lágar tekjur og skólaganga verður gjaldfrjáls. Efnahagsstefna á að draga úr ójöfnuði og því verður fjármagnstekjuskattur þrepaskiptur auk þess sem stærri hluti ágóða af nýtingu sameiginlegra auðlinda fer í sameiginlega sjóði.
Kvenfrelsi. Það eru blikur á lofti og bakslag í mannréttindum. Því er brýnt að uppræta kynjamisrétti og tryggja frelsi frá ofbeldi. Einnig þarf að leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum. Það verður að berjast gegn aukinni kvenfyrirlitningu og fordómum í samfélaginu með öllum tiltækum ráðum.
Náttúran. VG sker sig úr hvað varðar bæði gjörðir og stefnu í umhverfismálum. Við stöndum vörð um víðerni Íslands og náttúru. Tökum sanngjarnt auðlindagjald fyrir þjóðina og höldum orkuauðlindum og orkuinnviðum í almannaeign. Við losum minna og bindum meira með skjótum og fjármögnuðum aðgerðum.
Friður. Beitum okkur fyrir friðsamlegum lausnum, mannréttindum og lýðræði. Við stöndum með frjálsri Palestínu og viljum vopnahlé strax. Hætta þarf ómannúðlegri og harkalegri stefnu gegn fólki á flótta. Hér stuðlar félagslegt réttlæti að friðsömu og mennsku samfélagi.
Stefið í áherslum VG er mennskan, sameignin og sanngirnin. Réttlætið þar sem bæði fólk og náttúra eru í forgrunni sem er andstæða ofríki auðvalds. Við eigum öll ekki bara tilverurétt, heldur rétt á að lifa góðu lífi.
Þess vegna kýs konu til þingstarfa sem hefur mannúð að leiðarljósi, Hólmfríði oddvita VG í Suðurkjördæmi.
Helga Tryggvadóttir
Höfundur skipar 4. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst