Bæði kvenna- og karlalið ÍBV léku deildarleiki í gær. Það var sannkallaður botnslagur á Seltjarnarnesi þegar Grótta tók á móti ÍBV í Olísdeild kvenna. Grótta neðstar og ÍBV í næsta sæti fyrir ofan. Enduðu leikar 22-22.
Hjá ÍBV voru þær Birna Berg Haraldsdóttir og Sunna Jónsdóttir atkvæðamestar með sitthvor sex mörkin, þá gerði Alexandra Ósk Viktorsdóttir fimm mörk. Grótta jafnaði þegar rúmlega ein mínúta lifði leiks og þrátt fyrir tækifæri beggja liða á lokamínútunni tókst hvorugu liðinu að skora. ÍBV er því enn í umspilssætinu og Grótta í fallsætinu.
Í Olísdeild karla mættust Haukar og ÍBV. Eyjaliðið lenti undir snemma leiks og voru undir 18-13 í leikhléi. Þeir náðu að saxa á forskotið þegar leið á seinni hálfleikinn og fengu nokkur tækifæri til að jafna leikinn, en allt kom fyrir ekki og dró aftur í sundur með liðunum í lokin. Lokatölur 28-24. Sigtryggur Daði Rúnarsson dró vagninn í markaskorun fyrir Eyjaliðið. Hann gerði 10 mörk. Þá varði Petar Jokanovic tólf skot í markinu hjá ÍBV.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst