Sóttvarnalæknir hefur lokið endurskoðun á reglum um sóttkví og einangrun vegna Covid-19 og er niðurstaðan sú að stytta megi einangrun smitaðra og sóttkví þeirra sem hafa verið útsettir fyrir Covid, án þess að auka hættu á útbreiðslu veirunnar. Heilbrigðisráðherra hefur gert breytingu á reglugerð nr. 1100/2021 þessa efnis, í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Að uppfylltum skilyrðum getur tími í einangrun orðið skemmstur sjö dagar. Almenn krafa um dvöl í sóttkví styttist úr sjö dögum í fimm, að því gefnu að henni ljúki með neikvæðri niðurstöðu úr PCR prófi. Ef einstaklingur undirgengst ekki PCR próf til að ljúka sóttkví þarf hann að sæta henni í 14 daga. Reglugerðin tekur gildi frá og með 29. október og taka breyttar reglur einnig til þeirra sem þegar eru í sóttkví eða einangrun.
Reglugerðinni sem birt er hér að neðan fylgja leiðbeiningar sóttvarnalæknis fyrir almenning varðandi heimasóttkví og leiðbeiningar varðandi einangrun í heimahúsi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst