Á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja lá fyrir tillaga að deiliskipulagi vegna styttingar Hörgaeyrargarðs um 40 m og lýsing á framkvæmdum og framkvæmdaleyfi. Umsagnir bárust frá opinberum umsagnaraðlum sem ekki gera athugasemdir við framkvæmdina. Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélags sendi inn umsögn fyrir hönd félagsins þar sem fagnað er styttingu garðsins en vitnað til útreikninga Vegagerðarinnar um þörf fyrir frekari styttingu til að bæta öryggi við höfnina.
Ráðið þakkaði yfirferðina og samþykkti fyrir sitt leyti breytingu á deiliskipulagi og lýsingu á framkvæmd vegna styttingar Hörgaeyrargarðs um 40 m. „Sett verður inn ákvæði í framkvæmdaleyfi að gætt verði að því að framkvæmdir á svæðinu valdi ekki hnjaski eða skemmdum á Vestmannaeyjastreng 2 (VM-2), einnig verði gætt af mengunarvörnum frá vinnuvélum en þar sem garðurinn verður fjarlægður með gröfu á pramma er ekki lengur sama hætta á raski við Löngufjöru. Haft verður samráð við Vegagerðina varðandi leiðarmerkingar og ljós. Stytting garðsins umfram 40 m verður skoðað sem hluti af breytingu landnotkunarreita hafnarsvæðis á Aðalskipulagi Vestmannaeyja sem stendur yfir,“ segir í fundargerð. Var erindinu vísað til bæjarstjórnar sem fundar í dag.
Vestmannaeyjahöfn – Hörgeyrargarður er til vinstri á myndinni, undir Heimakletti.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst