Veðurstofa hefur gefið út gular viðvaranir fyrir sunnan- og vestanvert landið í dag. Búast má við éljagangi og suðvestan hvassviðri allt frá Breiðafirði austur fyrir Hornafjörð.
Suðvestanhríð brestur á um sunnan- og vestanvert landið í dag. Veðurstofa hefur gefið út gular viðvaranir sem taka gildi klukkan 9 fyrir Breiðafjarðarsvæðið, en klukkan 11 á Faxaflóa, Höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Suðausturlandi.
Búast má við éljagangi með skafrenningi og slæmu skyggni. Líklegt er að eitthvað verði um truflanir á samgöngum og tímabundnar lokanir á vegum.
Viðvaranirnar gilda fram til miðnættis.
Veðurspá gerir ráð fyrir suðvestan 15-23 m/s með éljum og kólnandi veðri í dag, hvassast suðvestantil.
Norðaustantil á landinu styttir hins vegar upp og birtir til er líður á daginn.
Frost verður á bilinu 0 til 6 stig í kvöld.
Heldur dregur úr vindi og éljum þegar líður á morgundaginn. Suðlæg átt upp á 5-10 m/s verður um norðvestanvert landið en suðvestan 10-18 m/s með suðurströndinni og austanlands.
Seint annað kvöld og aðfaranótt sunnudags snýst síðan í norðaustanátt og styttir þá að mestu upp sunnan heiða.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst