Við fögnum Sjómannadeginum um næstu helgi og í dag hefst TM mótið í knattspyrnu. Þessir tveir stóru viðburðir falla saman í tíma á nokkurra ára fresti og þá er nóg um að vera.
Við hjá Vestmannaeyjabæ, eins og Eyjamenn allir, erum alltaf jafn stolt og glöð þegar ÍBV íþróttafélag heldur sín knattspyrnumót á hverju sumri. Þetta eru stórverkefni sumarsins á íþróttasviðinu: TM mótið og Orkumótið í Eyjum. Mikil vinna og undirbúningur liggur að baki hjá félaginu, sem og öllum þeim þátttakendum sem mótin sækja. Enda eru þessi mót í flestum tilvikum hápunkturinn á sumrinu hjá þeim iðkendum og þjálfurum sem sækja okkur heim. Þetta árið hefur undirbúningurinn og umgjörðin verið „venjuleg“ eftir tveggja ára takmarkanir út af faraldrinum.
Eyjamenn eru þekktir fyrir að taka vel á móti gestum og það er alltaf sérstök upplifun fyrir krakkana, nánast eins og að fara til útlanda, þegar farið er um borð í Herjólf og siglt til Eyja. Mikil spenna og gleði ríkjandi.
TM mótið fer fram í 33. sinn í ár og þátttakendur hafa aldrei verið fleiri en nú. Félagið heldur líka 38. Orkumótið nú í júní, sem var fyrirmynd annara sumarmóta á Íslandi. Jákvæð upplifun af Eyjum, ásamt leikgleði og hæfilegu keppnisskapi, er það sem gerir mótin að minningum sem fyrnast seint og eru alltaf svo verðmætar. Gott er að hafa í huga að þetta er upplifun og þetta er ævintýri sem vert er að njóta.
Fyrir okkur hér í Eyjum eru mótshelgarnar tvær af stærstu ferðamannahelgum sumarsins, enda foreldrar og fjölskyldur dugleg að fylgja krökkunum sínum til leiks. Þetta er einmitt stór hluti af töfrum mótanna: það er ekki síður skemmtilegt að vera foreldri eða fylgdarmaður og sjá og upplifa gleðina sem skín úr hverju andliti.
Við fáum líka „venjulega“ sjómannahelgi þessa helgina eftir tveggja ára hlé. Sjómannadagurinn hefur verið haldin hátíðlegur hér í Eyjum síðan árið 1940 og er hátíðin alla helgina með veglegri dagskrá. Sjómannadagsráð leggur mikinn metnað í dagskrána fyrir okkur öll til að njóta, unga sem aldna, heimafólk og gesti.
Vestmannaeyjar hafa upp á margt að bjóða og efast ég ekki um að við öll eigum eftir að eiga góðar stundir næstu daga á okkar fallegu eyju.
Ég vil hvetja bæjarbúa og gesti til að taka virkan þátt í öllu því sem er í boði á næstu dögum. Góða skemmtun og gleðilega sjómannahelgi!
Íris Róbersdóttir, bæjarstjóri
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst