Mikil gleði og skemmtun ríkti á sunnudeginum á Þjóðhátíð í ár og til margra ánægju var veðrið andstæða veðursins frá kvöldinu áður.
Hápunktur margra á ári hverju er brekkusöngurinn sem trúbadorinn og Selfyssingurinn Magnús Kjartan Eyjólfsson leiddi í þriðja skiptið þetta árið. Áður en brekkusöngurinn hófst var sýnt stutt myndband í minningu Árna Johnsen sem bjó til brekkusönginn fyrir 46 árum síðan í þeirri mynd sem við þekkjum hann í dag.
Söngvakeppni barnanna var haldin og Bríet og Jón Ólafs og vinir sungu fyrir stútfulla brekkuna á kvöldvökunni. Blysin sem tendruð voru eftir brekkusönginn voru 149 talsins þetta árið sem þýðir að Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum á stórafmæli á næsta ári.
Birnir, Páll Óskar og Stuðlabandið héldu uppi stuðinu á stóra sviðinu eftir miðnætti og peyjarnir í Bandmönnum og Brimnes á því litla.
Meðfylgjandi myndir tók Addi í London.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst