Bæjarráð fjallaði á fundi sínum í síðustu viku um bréf Jafnréttisstofu, dags. 2. mars sl., um áhrif nýrrar jafnréttislöggjafar á sveitarfélög. Í desember 2020 samþykkti Alþingi tvenn ný lög sem lúta að jafnréttismálum og leysa af hólmi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Nýju lögin eru annars vegar lög um stjórnsýslu jafnréttismála nr. 151/2020 og hins vegar lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020.
Í lögunum er fjallað um skyldur sveitarfélaga þar sem m.a. er gert ráð fyrir að sveitarfélög skulu nú móta markmið og aðgerðir til að koma í veg fyrir mismunun, ekki eingöngu vegna kyns, heldur einnig óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Þá er einnig gerð sú breyting að ekki er lengur kveðið á um sérstaka jafnréttisnefnd, heldur skal sveitarstjórn fela byggðarráð eða annarri fastanefnd sveitarfélagsins að fara með jafnréttismál.
Sveitarfélög þurfa, eigi síðar en ári eftir næstu sveitarstjórnarkosningar, að hafa samþykkt jafnréttisáætlanir sem ná til þeirra þátta sem nefndir hafa verið. Jafnréttisstofa hefur eftirlit með því að sveitarfélög setji sér slíkar áætlanir og veitir einnig stuðning og ráðgjöf. Gefnar hafa verið út leiðbeiningar um gerð jafnréttisáætlana hjá sveitarfélögum.
Bæjarráð fól framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að annast undirbúning og innleiðingu í samráði við fjölskyldu- og tómstundarráð og Jafnréttisstofu.
Tilkynning til sveitarfélaga v. nýrra jafnréttisla.pdf
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst