Fiskistofa hefur svipt skip Bergs-Hugins, Vestmannaey VE 54 leyfi til veiða í tvær vikur frá og með 6. janúar nk. til og með 19 janúar. Þetta kemur fram í ákvörðun Fiskistofu sem birt er á vefsíðu Fiskistofu. Er skipið svipt veiðiréttinum vegna vigtarbrots sem átti sér stað þann 5. desember 2023.
Fram kemur í ákvörðuninni að um alvarleg og meiriháttar brot skipstjóra og áhafnarmeðlima að ræða framin af stórkostlegu gáleysi, sem hefði leitt til verulegs ávinnings fyrir málsaðila hefðu þau ekki komist upp. Vegna þessa segir Fiskistofa ekki ástæðu til að áminna eða veita lágmarksleyfissviptingu þrátt fyrir að um sé að ræða fyrsta brot.
Málsaðili telur hins vegar ekki neinn ásetning hafa legið að baki þess að bílstjóri á vegum Eimskips hafi ekið á brott með rúm tíu tonn af ýsu heldur hafi verið um mannleg mistök að ræða sem leiddi til þess að bílstjórinn fór ekki á bílvog og fékk ekki vigtunarnótu. Í ákvörðuninni segir Fiskistofa það hins vegar ekki skipta máli þar sem ábyrgðin á því að afli sé vigtaður sé á herðum skipstjóra.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst