Systurskipin Bergur VE og Vestmannaey VE, lönduðu bæði enn og aftur fullfermi í Neskaupstað á miðvikudag og í gær. Á vef Síldarvinnslunnar segir að afli beggja skipa hafi verið langmest þorskur, vænn og fallegur fiskur.
Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi, segir að veðrið hafi verið afar leiðinlegt þegar veiðar hófust. „Við hófum veiðarnar norðarlega á Glettinganesflakinu. Þær gengu þokkalega til að byrja með en svo datt veðrið niður og veiðin líka. Þá var haldið á Tangaflak þar sem fékkst ýsa og síðan á Tangaflakstotuna þar sem var góð þorskveiði,” segir Ragnar.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, lét vel af veiðinni. „Við byrjuðum suður á Hvalbaksgrunni í ýsu en síðan var haldið norður á Tangaflak og endað á Hryggnum í Seyðisfjarðardýpinu. Þetta gekk bara vel og yfir engu að kvarta,” segir Birgir Þór.
Bæði skip héldu til veiða á ný fljótlega að löndun lokinni og má gera ráð fyrir því að þau landi fljótlega á ný eystra, segir ennfremur í fréttinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst