Kvennalið ÍBV í handbolta tapaði fyrir sterku liði Hauka þegar liðin mættust í Vestmannaeyjum í dag í Olís-deildinni.
Gestirnir skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins og virtust vera einbeittari í öllum sínum aðgerðum. ÍBV tókst hins vegar að vinna sig inn í leikinn og voru búnar að jafna í 3:3 áður en langt um leið. Við tók hræðilegur kafli þar sem Eyjakonur skoruðu ekki mark í tíu mínútur og var munurinn allt í einu orðinn heil fimm mörk og ljóst að róðurinn yrði þungur úr því sem komið var. Sandra Erlingsdóttir batt enda á markaþurrð liðsins þegar hún skorði sitt fyrsta mark í leiknum á 19. mínútu. Á tímabili var munurinn orðinn tvö mörk og útlit fyrir endurkomu en annað kom upp á daginn. Gestirnir frá Hafnafirði settu í næsta gír og juku forystu sína hægt og sígandi. ÍBV komst aldrei nálægt því að jafna leikinn og töpuðu sannfærandi með fimm mörkum, lokatölur 21:26.
Elín Jóna �?orsteinsdóttir, markmaður Hauka, átti stórleik í markinu með 23 skot varin og fólst munurinn á liðunum ekki síst þar. Einnig var vörn gestanna sterk og átti ÍBV í stökustu vandræðum með að finna glufur á henni allan leikinn og þurfti ÍBV í rauninni að hafa mun meira fyrir sínum mörkum en Haukar.
Markahæstar í liði ÍBV voru þær Sandra Erlingsdóttir og Ester �?skarsdóttir með sjö mörk hvor. Erla Rós Sigmarsdóttir var með átta mörk varin og Guðný Jenný Ásmundsdóttir sjö.
Eftir umferðina situr ÍBV fimmta sæti deildarinnar með sex stig en Haukar eru í öðru sæti með átta.