Þeim ferðum sem Herjólfur hefur þurft að sigla til Þorlákshafnar vegna óhagstæðra skilyrða í Landeyjahöfn hefur fækkað til muna með nýju skipi. Vegna kórónuveirunnar er fyrirséð að farþegum fækki mikið á þessu ári. Þetta kemur fram í frétt sem visir.is birti í morgun
Frá því nýi Herjólfur hóf að sinna hlutverki sínu um mitt síðasta ár hefur skipið sextíu og einu sinni þurft að sigla til hafnar í Þorlákshöfn vegna óhagstæðra skilyrða í Landeyjahöfn.
Frá ágúst í fyrra til desember voru dagarnir tuttugu og einn og frá janúar á þessu ári og til apríl eru dagarnir fjörutíu.
„Menn reiknuðu með sjötíu og einum degi að meðaltali á ári en þessi vetur hefur verið einstaklega þægilegur. Við höfum verið heppin að geta siglt alla mánuði í Landeyjar. Mismikið þó en til að mynda í desember það höfum við ekki gert áður,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf.
Aldrei hafi verið færri ferðir í Þorlákshöfn í desember.
Guðbjartur segir að til samanburðar hafi gamli Herjólfur siglt um og yfir 180 sinnum til Þorlákshafnar í stað Landeyja á sama tímabili 2018 til 2019.
Farþegar með Herjólfi í maí, júní, júlí og ágúst í fyrra voru rúmlega 247 þúsund eða um 76,8% af heildarfarþegafjölda á árinu. Ljóst sé að vegna kórónuveirufaraldursins verði þeir færri í ár.
„Það er alveg fyrirséð að það verður gríðarlegt högg í farþegaflutningum hjá okkur eins og bara hjá öllum öðrum á Íslandi og við erum búin að teikna upp mjög margar sviðsmyndir. Tekjufallið er mikið og við munum ekki sjá þann fjölda farþega sem við áttum von á í sumar,“ segir Guðbjartur.
Lægri rekstrarkostnaður í nýja skipinu er þó farinn að skila sér en Herjólfur gengur fyrir rafmagni sem og olíu.
„Við erum komin með rafmagnsturninn upp í Vestmannaeyjum en ekki í Landeyjum, þannig að við erum að keyra aðra leiðina á rafmagni og hina á olíu. Það er verulegur munur á rekstrarkostnaði hvort siglt er á rafmagni eða olíu.“
visir.is greindi frá
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst