Ung hjón með lítil börn unnu fimmfaldan fyrsta vinning í Lottó síðasta laugardag – rúmar 83,6 milljónir króna! Dagurinn hafði verið allskonar, verkefnin mörg, þreytan farin að segja til sín og konan orðin pínu buguð. Í miðjum amstri ákvað hún að kaupa sér lottómiða, eins og hún gerir stundum. Hún opnaði lottóappið, valdi sjálfsval og hélt svo áfram með daginn.
Það var ekki fyrr en seint um kvöldið, rétt áður en hún ætlaði að fara að sofa, að hún mundi eftir miðanum. Hún opnaði appið og þar blöstu við gulir hringir í kringum allar tölurnar í einni línu. „Þetta getur ekki verið rétt,“ hugsaði hún. Maðurinn hennar trúði þessu heldur ekki. Þegar hann sá svo upphæðina efst í appinu sagði hann: „Þetta er bara upphæðin sem hægt er að vinna, ekki það sem við höfum unnið.“
„En tölurnar voru réttar – og upphæðin, skattfrjáls og ótrúleg, rúmar 83,6 milljónir króna, er nú á leiðinni inn á bankareikninginn þeirra.“
Þau vissu ekki hvort þau ættu að hlæja eða gráta en eitt var víst: Þau áttu mjög erfitt með að sofna. „Við höfum átt lítið og skuldað mikið en það heyrir nú allt í einu sögunni til,“ sagði vinningshafinn brosandi og enn hálf skjálfandi. Hún hafði keypt miðann eins og venjulega – án mikilla væntinga – en lífið breyttist á einni kvöldstund. Fjölskyldan ætlar að nýta vinninginn til að greiða niður skuldir, tryggja börnunum betri framtíð og leyfa sér að njóta lífsins aðeins meira. „Við erum enn í smá sjokki – en ótrúlega þakklát.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskri Getspá. Þar er þeim óskað innilega til hamingju – og minnt á að stundum þarf ekki meira en einn miða til að breyta lífinu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst