Þetta er ekki boðlegt!
Lítiðbarn2

Hvað er yndislegra en að ganga með barn, upplifa meðgöngu og vera með sínum nánustu. Fyrir 28 árum síðan átti ég yngstu dóttir mína, meðgangan var frábær og ég fékk alla þá þjónust sem þörf var á, ljósmóðir, læknar og sónarskoðun allt hér í Vestmannaeyjum. Að morgni 21 september gekk ég upp Hólagötuna og bar út moggan í annað hvert hús eins og alla aðra daga þar á undan, allt í góðu með það um kvöldið fékk ég hríðar og hringdi í ljósmóður og við mældum okkur mót kl.10.30 og lítil prinsessa kom í heiminn 01.15 um nóttina allir glaðir allt gekk vel. Daginn eftir var ég spurð hvort ég vildi ekki liggja inni í tvo til þrjá daga og hvíla mig sem ég lét verða af. Þar var stjana við mig og ég gat dúllað við dömuna mína, í mánuð á eftir kom ungbarnahjúkka (ljósmóðir) heim og vigtaði, mældi og athugaði hvernig gekk, þetta er eðlileg meðganga og eftirlit, þetta er okkar réttur sem skattborgarar. Nú er tíðin önnur í dag fylgir því kvíði að ganga með barn á landsbyggðinni.

Ungt par er að koma með sitt fyrsta barn allir glaðir, nokkrir mánuðir meðgöngunar fara í kvíða, af hverju; jú.. þau þurfa að fara til Reykjavíkur í sónar. Gisting, ferðakosnaður og vinnutap tvisvar sinnum á meðgöngu. Svo fer að líða að settum degi en þá þarf að redda gistingu í Reykjavík, það vill svo til að þetta unga fólk á ekki ættingja í Reykjavík sem þau geta verið hjá, þetta kostar pening og vinnutap í eitthverjar vikur. Þau þurfa að fara í bæinn tveimur vikum fyrir settan dag og dvelja þar helst í nokkra daga eftir svo barnið geti farið í fimm daga skoðun, betra segja fræðingarnir þau eru að eiga sitt fyrsta barn. Væri ekki betra fyrir alla að þetta unga par gæti verið með sínum nánustu þessar síðustu vikur, við gætum hjálpað þeim að undirbúa þau fyrir foreldra hlutverkið og haldið utan um þau á þessum yndislega tíma; Nei ! þessar elskur eru sendar til Reykjavíkur og verða að bíða á sjúkrahóteli með beiðni frá ljósmóður þess til sönnunar að hún sé að fara að eiga barn, eins og það sjáist ekki að hún sé ólétt ! Pabbinn þarf líka að koma með beiðni til sönnunar þess að hann sé faðir barnsins svo hann megi gista með henni. Svo er bara að bíða, ekkert við að vera, þegar hún er búin að eiga þurfa þau að fara með litla krílið sitt á hótel, þegar það ætti að koma beint inn á sitt eigið heimili. Eftir þetta er þeim hent út og þau verða að bjarga sér. Þetta er ekki boðlegt ! Kostnaðurinn hjá þessu unga fólki er sama og verð á nýjum barnavagni ef ekki meiri. Þetta unga fólk á skilið að vera heima og vera í kringum fólkið sitt sem kennir þeim og hjálpar í þessu nýja hlutverki.

Aldís Atladóttir

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst

X